„Pólverjar eru með gjörólíkt lið samanborið við ítalska landsliðið. Þeir hafa annan stíl,“ sagði Ómar Ingi Magnússon, fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik karla, spurður út í pólska landsliðið sem það íslenska mætir í annarri umferð Evrópumótsins í Kristianstad Arena klukkan 17 í dag.
Pólverjar töpuðu fyrir Ungverjum á föstudagskvöld, 29:21, og virtust ekki eiga mikla möguleika í viðureigninni. Fyrir Pólverja er því lykilatriði að vinna Ísland til þess að eiga einhvern möguleika á sæti í milliriðlum. Að sama skapi tryggir íslenska liðið sér sæti í milliriðli með sigri á Pólverjum.
Gerðu mörg mistök
„Pólverjar leika hefðbundnari handbolta og eru með spænskan þjálfara. Við verðum að búa okkur undir það. Pólverjar gerðu mörg mistök gegn Ungverjum. Ég á von á að þeir sníði agnúana af og mæti öflugri til leiks gegn okkur. Þetta verður erfitt fyrir okkur. Að baki hjá okkur er bara einn sigur. Við verðum að halda áfram og ná í næsta sigur,“ sagði Ómar Ingi Magnússon fyrirliði landsliðsins í viðtali við handbolta.is í gær.





