„Þetta er algjör bomba og um leið rós í hnappagat félagsins,“ sagði Arnór Atlason, aðstoðarþjálfari Aalborg Håndbold í samtali við handbolta.is um tíðindi dagsins að Aron Pálmarsson komi til félagsins í sumar frá Barcelona á þriggja ára samningi.
„Það sýnir mikinn metnað hjá Aroni að vilja koma í umhverfið hér í Danmörku þar sem mikils verður ætlast til af honum. Væntingar til hans verða háar á sama tíma og kröfurnar til liðsins eru mjög miklar. Ég veit ekki hvort menn hafi vanmetið dönsku deildina hingað til en það er ljóst að toppurinn á deildinni er þegar mjög öflugur. Við förum ekki í einn leik í deildinni þar sem við eigum sigur vísan,“ segir Arnór og vísar til þess að Aalborg-liðið verði að halda vel á spilunum í úrslitakeppninni um danska meistaratitilinn til þess að komast í undanúrslitin.
Góður handbolti og mikill áhugi
„GOG er að gera frábæra hluti í Evrópudeildinni og Bjerringbro/Silkeborg sló Melsungen út í Evrópukeppninni í haust. Skjern og Holstebro eru með frábær lið sömuleiðis. Handboltinn í Danmörku er góður og áhuginn er gríðarlegur, bæði meðal almennings og í fjölmiðlum,” segir Arnór. Með komu Arons, Mikkel Hansen og fleiri má reikna með að áhuginn nái nýjum hæðum.
Stærri keppnishöll?
Arnór segir það til marks um áhugann fyrir leikjum félagsins að nú þegar liggi fyrir að íþróttahöllin í Álaborg rúmi ekki alla þá sem hafa áhuga á að kaupa miða á deildarleiki liðsins á næsta keppnistímabili. Íþróttahöllin rúmar 5.000 áhorfendur í sæti.
Erfitt að fá miða á heimaleiki
„Við sjáum til dæmis fram á það á næsta keppnistímabili verður erfitt að frá miða á venjulegan heimaleik í deildinni. Það er í raun áhyggjuefni að hún skuli ekki rúma fleiri,“ sagði Arnór ennfremur sem segir að félagið standi traustum fótum félagslega og fjárhagslega. Reksturinn hafi til dæmis skilað afgangi öll árin eftir að Aalborg Håndbold A/S varð til árið 2011.
„Félagið hefur stækkað ár frá ári. Okkar áskorun hefur verið sú að taka við yngri leikmönnnum eins og Janusi Daða Smárasyni, Ómari Inga Magnússyni og Sander Sagosen. Hjá félaginu hafa þeir þróast og þroskast sem leikmenn en hafa síðan farið frá í önnur félög. Núna langar okkur að halda mönnum og búa til lið sem getur farið alla leið í Meistaradeildinni.
Enn betur í stakk búnir
Í fyrra vorum við komnir í 16-liða úrslit Meistaradeildar þegar keppni var hætt. Við töldum okkur þá hafa lið sem gæti farið í átta liða úrslit. Nú erum við komnir í átta liða úrslit keppninnar. Það vantar ekki mikið upp á að geta farið alla leið. Með Aron og Mikkel Hansen, mönnum sem hafa unnið allt í handboltanum, teljum við okkur verða enn betur í stakk búnir að stíga skrefið til fulls,“ sagði Arnór Atlason, aðstoðarþjálfari Aalborg Håndbold, í samtali við handbolta.is í morgun.