Hinn 18 ára gamli Þorsteinn Leó Gunnarsson hefur vakið athygli margra sem fylgst hafa með leikjum Aftureldingar í Olísdeild karla í handknattleik á keppnistímabilinu. Þorsteini hefur skotið hratt fram á sjónarsviðið og verið í enn stærra hlutverki en reiknað var með í haust vegna þess langa sjúkralista sem Gunnar Magnússon þjálfari Aftureldingar situr uppi með.
„Þetta er fyrsta árið sem ég spilaði með meistaraflokki. Í fyrra var ég með þriðja flokki og U-liðinu,“ sagði Þorsteinn Leó þegar handbolti.is heyrði í honum á dögunum.
Þegar Gunnar tók við þjálfun Aftureldingar í sumar sem leið rak hann strax augun í Þorstein Leó sem er 205 sentimetrar á hæð og ljóst að svo hávaxin rétthent skytta er ekki á hverju strái í íslenskum handbolta.
„Ég fundaði fljótlega með Gunna eftir að hann byrjaði og hann spurði hvort ég væri tilbúinn að leggja á mig vinnu til að ná lengra. Ég var til í það og Gunni kom mér í séræfingar undir stjórn Fannars Karvels einkaþjálfara. Síðan hef ég æft aukalega þrisvar í viku, aðallega lyftingar og hef bætt á mig átta kílóum að vöðvum og er nú orðinn 107 kíló,“ sagði Þorsteinn sem hefur æft handknattleik með Aftureldingu frá sex ára aldri.
Mikil vinna framundan
„Það enn mikil vinna framundan hjá mér en þetta er það eina sem mig langar til þess að gera, ná langt í handboltanum og komast í atvinnumennsku. Ég er þess vegna tilbúinn að leggja mikið á mig,“ sagði Þorsteinn ennfremur en hann hefur skorað 18 mörk í fimm leikjum með Aftureldingu í Olísdeildinni í vetur og verið í stóru hlutverki. Hann lék m.a. nær alla leikinn gegn Haukum í síðustu viku.
„Það hefur orðið mikil breyting hjá mér á skömmum tíma, frá því að vera áhorfandi á síðasta tímabili upp í að vera í stóru hlutverki í vetur og í enn meira hlutverki en ég reiknað með vegna þess að það eru svo margir meiddir hjá okkur,“ sagði Þorsteinn sem er á þriðja ári í Framhaldasskólanum í Mosfellsbæ.
Svolítið stressaður fyrst
„Ég var mjög stressaður til að byrja með í haust en síðan hef ég alveg jafnað mig enda gengið vel að komast inn í leikkerfin. Ég fæ mikið skotleyfi hjá Gunnari. Hann hefur sagt mér að skjóta eins og mikið og ég vil. Svo hef ég mest verið í bakvarðastöðunni í vörn en í síðasta leik gegn Haukum þá fór ég aðeins í þristinn sem er miðjustaðan í vörninni,“ segir Þorsteinn sem hefur leikið í skyttustöðunni vinstra megin en einnig farið yfir hægra megin sem hann segir vera allt annað hlutverk.
„Stefnan er bara að komast í landsliðið og fara út í atvinnumennsku. Þangað til þarf ég að leggja á mig mikla vinnu og stimpla mig inn í deildina hér heima áður en lengra verður haldið,“ sagði Þorsteinn Leó Gunnarsson hin unga og upprennandi stórskytta Aftureldingar.
Afturelding tekur á móti FH í Olísdeild karla í kvöld klukkan 19.30. Leikið verður fyrir luktum dyrum en mögulegt verður að fylgjast með leiknum í útsendingu Stöðvar2Sports.