- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Þetta er til skammar“

Britney Cots stekkur upp og kastar að marki KA/Þórs í haust. Mynd/Brynja Trausta
- Auglýsing -

„Það er margt í þessum leik sem mér er gjörsamlega fyrirmunað að skilja,“ sagði Jakob Lárusson, þjálfari kvennaliðs FH í samtali við handbolta.is eftir að FH tapaði fyrir KA/Þór í Olísdeild kvenna í Kaplakrika í gærkvöld, 21:19.


Jakob var ómyrkur í máli vegna frammistöðu dómara leiksins, Harðar Aðalsteinssonar og Bóasar Barkar Bóassonar, sem hann segir að hafa horft framhjá slæmri meðferð sem markahæsti leikmaður Olísdeildarinnar, Britney Cots, hlaut í leiknum. Einnig segir hann brottrekstur þann sem Cots hlaut vegna meints sóknarbrots í fyrri hálfeik vera hreinlega til skammar.


„Mér þótti og þykir Britney ekki fá sömu meðferð og aðrir leikmenn í þessum leik. Það mátti hanga á henni og toga í hana. Eins og til dæmis í fyrri hálfleik þegar hún fór eitt sinn í árás þá var keyrt aftan á hana svo harkalega með þeim afleiðingum að hún lenti á leikmanni KA/Þórs. Dómarar leiksins brugðu þá á það ráð að gefa Britney tvær mínútur. Þetta er aðeins eitt dæmi og lýsir hvernig komið er fram við hana. Ég hef rætt þessi mál við marga dómara síðan hún fór að spila með okkur. Það er gjörsamlega óþolandi og ólíðandi hvernig farið er með hana í leikjum,“ sagði Jakob en Cots hefur tekið stórstígum framförum undir stjórn Jakobs síðustu ár og var á dögunum valin í landsliðshóp Senegal sem kemur saman í Frakklandi eftir helgina.


Spurður hvort hann hafi einhverjar skýringar á þessari meintu framkomu gagnvart henni af hálfu dómara svaraði Jakob: „Ég skil það ekki. Kannski hefur hún það orð á sér að vera klaufaleg. Þannig hafa dómarar rætt um hana. Ég hef það frá fyrstu hendi að þeir hafi rætt um hana á þeim nótum. Ég hef átt í samskiptum við HSÍ vegna Britney alveg síðan í fyrra og ég ætla að vona að það verði ekki þannig, það sem eftir er tímabilsins, að menn komist upp með að fara fastar í hana en aðra leikmenn deildarinnar þó hún sé sterkari en flestar.


Nú er það næst á dagskrá hjá mér að klippa niður atriði úr þessum leik og senda til dómaranefndarinnar. Ég fer til dæmis ekkert ofan af því að brottreksturinn sem hún fékk í fyrri hálfleik var hreinlega til skammar,“ sagði Jakob og var greinilega þungt í skapi.

Jakob Lárusson, þjálfari FH, fyrir miðri mynd ræðir við sveit sína í leikhléi leiknum í gær. Mynd/Brynja Trausta


„Ég var að öðru leyti ánægður með leikinn af okkar hálfu, ekki síst varnarleikinn og markvörsluna hjá Hrafnhildi Önnu Þorleifsdóttur. Stelpurnar voru frábærar enda höfðu þær búið sig vel undir leikinn,“ sagði Jakob Lárusson, þjálfari kvennaliðs FH í samtali við handbolta.is eftir leikinn í Kaplakrika í gærkvöld.

Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir var frábær í marki FH gegn KA/Þór og var með 50% hlutfallsmarkvörslu. Mynd / Brynja Trausta
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -