Handknattleikslið Stjörnunnar kom til Baia Mare í Rúmeníu seint í gær eftir langt og strangt ferðalag frá Íslandi. Framundan er viðureign Stjörnunnar og CS Minaur Baia Mare á laugardaginn í fyrri umferð forkeppni Evrópudeildar karla í handknattleik.
Hrannar Guðmundsson þjálfari Stjörnunnar sagði handbolta.is áður en hann lagði af stað með sveit sína til Rúmeníu að til standi að æfa í Baia Mare í dag og aftur á morgun áður en kemur að viðureigninni á laugardaginn. Flautað verður til leiks klukkan 15 að íslenskum tíma.
Síðari viðureign liðanna verður í Hekluhöllinni laugardaginn 6. september. Samanlagður sigurvegari tekur sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar sem hefst um miðjan október.
Baia Mare merkir gullnáma en slíkar var og er að finna nærri borginni. Íbúar borgarinnar eru um 110 þúsund.
„Þetta eru stórir sterkir gaurar,“ segir Hrannar um leikmenn CS Minaur Baia Mare. Hrannar hefur legið yfir nýjustu leikjum liðsins undanfarna daga en m.a. lék liðið tvo leiki í meistarakeppninni í Rúmeníu á síðasta fimmtudag og föstudag.
„Ég á von á mikilli stemningu í húsinu og reikna með hörkuleik. Þetta er verðugur andstæðingur,“ bætti Hrannar við.
Valur mætti CS Minaur Baia Mare í undanúslitum Evrópubikarkeppninnar síðla í apríl 2024. Valur hafði betur í báðum leikjum, 36:28, á heimavelli og 30:24 ytra nokkrum dögum síðar. Frá þeim tíma hafa orðið nokkrar breytingar á liðsskipan CS Minaur Baia Mare eins og gefur að e.t.v. að skilja.
Verðum að ná toppleik
Hrannar segir ljóst að Stjarnan verði að leika afar vel til þess að eiga möguleika á hagstæðum úrslitum þannig að áfram verði möguleiki fyrir hendi þegar kemur að heimaleiknum, annan laugardag.
„Leikirnir verða ákveðin áskorun fyrir okkur. Það eru ekki margir leikmenn Stjörnunnar sem hafa áður tekið þátt í Evrópukeppni í handknattleik. Við verðum aðeins að njóta þess að taka þátt,“ sagði Hrannar sem er hvergi banginn.

Borgin Baia Mare er norðarlega í Rúmeníu, aðeins um 50 km frá landamærunum við Úkraínu, um 70 km frá landamærum Rúmeníu og Ungverjalands. Hinsvegar eru um 600 km til höfuðborgar Rúmeníu, Búkarest.