„Maður fer í öll færi og reynir að skora en þetta var fyrsta markið mitt á stórmóti sem er ólýsanleg tilfinning með alla Íslendingana í höllinni. Það fór um mann frábær tilfinning sem maður mun ekki gleyma,“ sagði Stiven Tobar Valencia í samtali við handbolta.is í spurður um fyrsta markið fyrir landsliðið á stórmóti sem hann skoraði í gær í sigurleiknum gegn Svartfellingum, 31:30. Stiven skoraði 13. mark Íslands eftir nærri 23 mínútna leik.
„Stemningin var mjög góð í keppnishöllinni með 12 þúsund áhorfendum. Þar á meðal voru mamma og litli bróðir minn. Svo þetta hafði allt mikla þýðingu fyrir mig,“ sagði Stiven Tobar ennfremur.
Stiven segist vera tilbúinn að grípa gæsina þegar hún gefst, það er að vera tilbúinn að koma inn á þegar þjálfarinn telur þörf vera á. Annars er Bjarki Már Elísson fyrsti hornamaður vinstra megin. Stiven hljóp í skarðið í gær þegar Bjarka var vikið af leikvelli og fékk að leika með í nærri 10 mínútur, eða allt til loka fyrri hálfleiks. „Ég bara þakklátur fyrir að fá tækifærið.“
Stiven Tobar þekkir aðeins til ungverskra leikmanna eftir að hafa leikið tvisvar með Val gegn Ferecváros í Evrópudeildinni á síðustu leiktíð.
„Leikurinn á morgun er mjög mikilvægur fyrir okkur. Allt undir. Verður bara spennandi,“ sagði Stiven og bætir við að það sé afar lærdómsríkt að fá tækifæri til þess að taka þátt í stórmóti í handbolta.
Viðureign Íslands og Ungverjalands hefst klukkan 19.30 á morgun, þriðjudag.
Lengra hjóðritað viðtal við Stiven Tobar er að finna hér fyrir neðan.