- Auglýsing -
„Þetta var ekki góður leikur. Við byrjum reyndar ágætlega og vorum þremur mörkum yfir þegar um tíu mínútu voru liðnar. Vörnin okkar var ágæt og við náðum að keyra á þær,“ sagði Birna Berg Haraldsdóttir stórskytta ÍBV þegar handbolti.is tók púlsinn á henni eftir annað eins marks tap ÍBV í röð í Olísdeild kvenna í handknattleik í dag. ÍBV mætti Stjörnunni á heimavelli.
„Síðan hleypum við Stjörnunni inni leikinn sem náði 13:3 kafla. Allt í einu var staðan orðin 12:18 í hálfleik og einhvern veginn hrundi allt hjá okkur. Það eina sem var í stöðunni var að taka sig saman í hálfleik og vinna muninn upp mark fyrr mark,“ sagði Birna Berg sem skoraði sex mörk og var markahæst ásamt Sunnu Jónsdóttur.
„Við vorum nálægt því að ná að minnsta kosti í annað stigið en gerðum of mikið af klaufalegum mistökum þegar við vorum að vinna okkur inni leikinn. Fyrir vikið náðum við aldrei að komast almennilega inni leikinn aftur fyrr en síðustu 12 mínúturnar. Þá hrukkum við í gang og fengum svo tækifæri til að jafna í lokin en vorum óheppnar. Stjörnuliðið var klókt í seinni hálfleik og spilaði mjög langar sóknir,“ sagði Birna Berg ennfremur og bætti við.
Þurfum að líta inn á við
„Núna höfum við tapað tveimur leikjum í röð með einu marki. Það svíður, við þurfum að lita inná við og skoða hvað gerist á þessum köflum þegar við dettum niður,“ sagði Birna Berg Haraldsdóttir við handbolta.is eftir tapið, 30:29, fyrir Stjörnunni í Vestmannaeyjum í dag.
- Auglýsing -