„Þetta var gríðarsterkt hjá strákunum. Það er alvöru að vinna Króatana. Þeir eru mörk hörkulið sem hefur allt,“ sagði Heimir Ríkarðsson annar þjálfari U19 ára landsliðs karla í handknattleik í kvöld eftir að íslenska liðið tryggði sér sæti í úrslitum Opna Evrópumótsins í handknattleik karla í kvöld með tveggja marka sigri á Króatíu, 32:30. Króatar skoruðu tvö síðustu mörk leiksins. Íslenska liðið mætir spænska landsliðinu í úrslitaleik í Scandinanvium-íþróttahöllinni í Gautaborg á morgun klukkan 18.15. Útsending verður á ehftv.com.
„Framundan er úrslitaleikur á morgun við Spánverja sem unnu Svía frekar auðveldlega í undanúrslitum,“ sagði Heimir sem lagði áherslu á að siguri íslenska liðsins á Króötum hafi verið liðsheildar sigur.
Spánverjar unnu íslenska liðið naumlega í riðlakeppninni í hörkuleik, 19:17. Þá var leiktíminn 2×20 mínútur en verður 2×30 mínútur á morgun eins og í undanúrslitaleikjunum.
Ísland leikur til úrslita á Opna EM í Gautaborg

„Það lögðu sig allir fram, hvort heldur í vörn eða sókn. Sóknarleikurinn gekk þokkalega smurt og varnarleikurinn var afar góður í síðari hálfleik þegar við fórum yfir í 5/1 vörnina. Þá unnum við boltann hvað eftir annað og fengum góð mörk í bakið á Króötunum. Auk þess var Jens Sigurðarson markvörður öflugur í markinu. Hann varði 16 skot, þar af tvö dauðafæri með skömmu millibili þegar skammt var til leiksloka,“ sagði Heimir sem var þegar farinn að rýna í leik spænska landsliðsins og búa strákana undir úrslitaleikinn á morgun.
Eigum að geta unnið
„Spánverjar eru með mjög skemmtilegt lið. Við töpuðum naumlega fyrir þeim í riðlakeppninni á mánudaginn. Með góðum leik eigum við hinsvegar að geta unnið þá,“ sagði Heimir Ríkarðsson ákveðinn en hann er þjálfari 19 ára landsliðsins ásamt Maksim Abkashev.
