Eftir tvo sigurleiki í röð máttu Díana Dögg Magnúsdóttir og samherjar í BSV Sachsen Zwickau að bíta í það súra epli að tapa í dag í heimsókn til Blomberg-Lippe, 28:25, í þýsku 1. deildinni í handknattleik. Aðeins var eins marks munur að loknum fyrri hálfleik, 14:13, Blomberg í vil.
„Þetta var óþarfa tap,“ sagði Díana Dögg í skilaboðum til handbolta.is eftir leikinn í dag. „Það var alltof mikið dripl á miðjunni hjá okkur. Boltinn flaut aldrei nógu vel í sókninni,“ bætti Díana Dögg sem skoraði fjögur mörk í leiknum, átti tvær stoðsendingar, þrjú sköpuð færi og vann tvö vítaköst.
BSV Sachsen Zwickau er í 12. sæti af 14 liðum deildinnar og er enn fyrir ofan fallstrikið. Liðið á 10 leiki eftir, en Bad Wildungen sem er í sætinu fyrir neðan á aðeins sjö leiki eftir óleikna. Leikjadagskráin hefur farið talsvert úr skorðum vegna kórónuveirunnar.
Næsti leikur BSV Sachsen Zwickau verður á miðvikudaginn á heimavelli við Thüringer HC.
Standings provided by SofaScore LiveScore