Sveinn Jóhannsson, landsliðsmaður í handknattleik, og samherjar í danska úrvalsdeildarliðinu SønderjyskE fengu nýjan þjálfara í dag, degi eftir að þeir töpuðu fyrir liðsmönnum Nordsjælland í dönsku úrvalsdeildinni.
Jan Pytlick þjálfara var gert að axla sín skinn nánast við fyrsta hanagal en til stóð að hann hætti eftir keppnistímabilið. Í ljósi þess að árangur SønderjyskE hefur verið talsvert undir væntingum var ákveðið að Pytlick hætti strax. Við þjálfuninni tekur Klavs Bruun Jørgensen sem hafði verið ráðinn til starfans frá og með næsta sumri. Jørgensen er fyrrverandi landsliðsmaður Dana og þjálfaði m.a. danska kvennalandsliðið um árabil, reyndar eins og Pytlick.
SønderjyskE er í 10. sæti af 15 liðum úrvalsdeildarinnar með níu stig eftir 12 leiki en keppni í deildinni er nærri því hálfnuð.
Í samtali handbolta.is við Svein á dögunum kom fram að ekki væri útilokað að hann rói á önnur mið á næsta sumri þegar samningur hans verður genginn út.
SønderjyskE byrjaði með hvelli í haust og vann meistara Aalborg í fyrstu umferð á heimavelli. Eftir það hefur árangurinn verið undir væntingum. GOG, sem Viktor Gísli Hallgrímsson leikur með, er í efsta sæti dönsku úrvalsdeildarinnar með 20 stig eftir 10 leiki.