Jón Brynjar Björnsson þjálfari kvennaliðs Aftureldingar hefur sagt starfi sínu lausu. Ástæða þess er breyting á persónulegum högum hans eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá Aftureldingu.
Jón Brynjar ætlar að fylgja unnustu sinni til Svíþjóðar þar sem hún hefur sérnám í læknisfræði í haust.
Jón Brynjar tók við þjálfun Aftureldingar fyrir ári. Undir hans stjórn hafnaði Afturelding í 3. sæti í Grill 66-deildinni og tapaði fyrir Stjörnunni í úrslitum umspils um sæti í Olísdeildinni.
„Stjórn handknattleiksdeildar þakkar Jóni Brynjari mjög gott samstarf síðasta árið og óskar honum og fjölskyldunni heilla í komandi verkefnum,“ segir í tilkynningu Aftureldingar.
Ekki kemur fram hver tekur við þjálfun Aftureldingar en liðið hefur sótt nokkurn liðsauka síðustu vikurnar.
Þjálfarar – helstu breytingar 2025