- Auglýsing -
- Auglýsing -

Þjálfari Donna og félaga gert að taka pokann sinn

Thierry Anti er sagður stýra PAUC í síðasta sinn á laugardaginn. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Thierry Anti þjálfari franska 1. deildarliðsins PAUC, sem Kristján Örn Kristjánsson, Donni, hefur leikið með frá haustinu 2020, stýrir liðinu í síðasta sinn á laugardaginn. Stjórn félagsins er sögð hafa ákveðið að leysa Anti frá störfum. Fréttavefurinn La Provence segir frá þessu í morgun. Benjamin Pavoni aðstoðarþjálfari á að taka við og stýra liðinu út tímabilið.


Hermt er í frétt La Provence að endanleg ákvörðun um að leysa Anti frá störfum hafi verið tekin eftir tap PAUC fyrir neðsta liði frönsku 1. deildarinnar, Sélestat, um síðustu helgi. Tapið kom í kjölfar þess að leikmenn PAUC voru kjöldregnir í Origohöllinni nokkrum dögum áður. Tapið gerði út um vonir PAUC-liðsins um sæti í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar.

Sigur PAUC á Benidorm í síðustu umferð riðlakeppni Evrópudeildarinnar breytir engu um að Anti taki pokann sinn eftir leikinn við Nantes á laugardaginn kemur.

Vikum saman hefur verið uppi orðrómur um að Anti axlaði sín skinn í vor og Svíinn Magnus Andersson taki við þjálfari PAUC.

Í frjálsu falli

Anti tók við þjálfun PAUC fyrir þremur árum. Árangur liðsins á síðasta keppnistímabili í frönsku 1. deildinni var góður en að sama skapi endaslepptur í Evrópudeildinni. Liðið komst ekki í 16-liða úrslit þá fremur en nú. Á síðustu vikum virðist flest hafa farið í skrúfuna hjá Anti og liðsmönnum PAUC og liðið nánast verið í frjálsu falli. Ef marka má frammistöðu PAUC í leiknum við Val í Origohöllinni fyrir viku virðist þjálfarinn hafa misst traust leikmanna.

Sýnir Donna engan skilning

Donni er veikindaleyfi um þessar mundir. Í samtali við við Vísi fyrir nokkrum dögum sagðist hann mæta skilningsleysi hjá Anti vegna veikindanna og að samband sitt við þjálfarann væri erfitt.


Anti er 64 ára gamall og er einn af þekktari handknattleiksþjálfurunum Frakklands. Hann þjálfaði m.a. PSG frá 2004 til 2008 og gerði garðinn frægan hjá Nantes frá 2009 til 2019. Nantes lék m.a. óvænt til úrslita í Meistaradeild Evrópu vorið 2019 þegar þrjú frönsku lið komust í undanúrslit keppninnar.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -