Sú óvenjulega staða er komin upp að Paulo Pereira landsliðsþjálfari Portúgals verður í leikbanni þegar lið hans mætir Íslandi á heimsmeistaramótinu í handknattleik á fimmtudagskvöldið.
Lét skapið hlaupa með sig í gönur
Ástæða leikbannsins er sú að Pereira var úrskurðaður í tveggja leikja bann eftir að hafa látið skapið hlaupa með sig í gönur eftir síðasta leik portúgalska landsliðsins í forkeppni Ólympíuleikanna í mars 2021. Forkeppnin var á vegum Alþjóða handknattleikssambandsins, IHF. Vegna þess að Portúgal hefur ekki síðan tekið þátt í leikjum sem heyra beint undir IHF hefur Pereira ekki enn tekið út leikbannið. Hann situr þar með í súpunni þegar heimsmeistaramótið hefst í vikunni.
Í skammarkróknum
Pereira mun sitja í skammarkróknum og fylgjast með sínum mönnum úr áhorfendastúkunni í tveimur fyrstu leikjum mótsins en mæta tvíefldur til leiks í lokaumferð riðlakeppninnar mánudaginn 16. febrúar í leik við Ungverja.
Æfði sig í Noregi
Pereira segir í samtali við Ojogo vera undir það búinn að stjórna liðinu úr fjarska í tveimur fyrstu leikjunum á HM. Hann hafi nýtt tvo leiki á æfingamóti í Noregi á síðustu dögum til að þjálfa sig í samskiptum við leikmenn og aðstoðarmann sinn, Paulo Fidalgo, fjarri varamannabekknum. Pereira má heldur ekki hitta leikmenn í hálfleik en er heimilit að búa liðið undir leikina í aðdraganda þeirra.
D-riðill (Kristianstad) 12. janúar: Ungverjaland – Suður Kórea, kl. 17. Ísland – Portúgal, kl. 19.30. 14. janúar: Portúgal – Suður Kórea, kl. 17. Ísland – Ungverjaland, kl. 19.30. 16. janúar: Suður Kórea – Ísland, kl. 17. Portúgal – Ungverjaland, kl. 19.30.