Tjörvi Týr Gíslason og samherjar hjá þýska 2. deildarliðinu HC Oppenweiler/Backnang eiga von á að fá nýjan þjálfara á morgun vegna þess að Stephan Just var vikið frá störfum í dag. Just hefur þjálfað HC Oppenweiler/Backnang í rúmt ár og stýrði liðinu upp úr 3. deild í vor. Oppenweiler/Backnang hefur aldrei fyrr leikið í 2. deild.
Forráðamenn félagsins gerðu sér vonir um betri árangur í fyrstu leikjum 2. deildar en raun hefur orðið á. Sáu þeir greinilega þann kost vænstan að skipta um mann í brúnni með væntanlegri von um að honum takist að breyta um kúrs.
HC Oppenweiler/Backnang hefur aðeins krækt í tvö stig í fyrstu sex viðureignum tímabilsins. Fyrir vikið reka nýliðarnir lestina í deildinni.
Just er öllu vanur eftir nokkur ár í þjálfun. Fyrir tveimur árum var honum vikið úr starfi hjá EHV Aue og Ólafur Stefánsson tók við. Aue-liðið var þá í svipaðri stöðu og HC Oppenweiler/Backnang er nú.
HC Oppenweiler/Backnang er með bækistöðvar í bænum Oppenweiler í Baden-Württemberg, í suður Þýskalandi. Tjörvi Týr samdi við félagið síðla í júlí.