- Auglýsing -
- Auglýsing -

Þjálfarinn dró fram skóna og reið baggamuninn

Fjölnismenn fögnuðu í vor og aftur í kvöld. Ljósmynd/Þorgils G.
- Auglýsing -

Gunnar Steinn Jónsson þjálfari Fjölnis tók fram keppnisskóna eftir rúmlega tveggja ára hlé, reimaði þá á sig í kvöld og lék með liði sínu gegn HK í þriðju umferð Olísdeildar karla í handknattleik. Þátttaka Gunnars Steins, fyrrverandi landsliðsmanns, reið baggamuninn fyrir Fjölnisliðið sem vann sinn fyrsta leik í deildinni, 28:27, í Fjölnishöllinni í síðasta leik þriðju umferðar deildarinnar. Gunnar skoraði sjö mörk og átti fjórar stoðsendingar. Ljóst er að það búa ennþá töfrar í gömlu skónum hans Gunnars.

Mikið gekk á síðustu mínúturnar og ekki síst á lokasekúndunum. Fjölnismönnum brást bogalistin og HK-ingar ruku fram völlinn með Leó Snæ Pétursson fremstan í flokki. Hann náði skoti á markið og boltinn fór í netið. Dómararnir, Akureyringarnir Siguróli Sigurðsson og Sævar Árnason, dæmdu meint jöfnunarmark ekki gilt og þar við sat. Uppnám varð á vellinum og fóru rauð spjöld á loft. Fullvíst má telja að rauðu spjöldin dragi á eftir sér dilk.

Fjölnismenn eru þar með komnir á blað í deildinni og hafa sín tvö stig eins og HK sem vann Íslandsmeistara FH á afar sannfærandi hátt fyrir viku en biðu nú lægri hlut fyrir nýliðum deildarinnar.

Fjölnismenn byrjuðu leikinn af miklum krafti í kvöld og tókst að slá vopnin úr höndum HK-inga sem skoruðu aðeins níu mörk í fyrri hálfleik. Fjölnir skoraði á hinn bóginn 12.
Fjölnir hélt uppteknum hætti framan af síðari hálfleik og náði mest sex marka forskoti, 16:10.

Liðið hélt frumkvæðinu áfram og var þremur til fimm mörkum yfir þangað til á síðustu mínútum að HK-menn lögðu allt í sölurnar til þess að ná a.m.k. í annað stigið. Allt kom fyrir ekki og Fjölnismenn náðu að margra mati óvæntum sigri.

Mörk Fjölnis: Gunnar Steinn Jónsson 7, Björgvin Páll Rúnarsson 5, Aðalsteinn Örn Aðalsteinsson 5, Alex Máni Oddnýjarson 4, Victor Máni Matthíasson 3, Óðinn Freyr Heiðmarsson 2, Viktor Berg Grétarsson 1, Þorleifur Rafn Aðalsteinsson 1.
Varin skot: Sigurður Ingiberg Ólafsson 15/1, 36,6%.

Mörk HK: Leó Snær Pétursson 8, Sigurður Jefferson Guarino 6, Ágúst Guðmundsson 3, Hjörtur Ingi Halldórsson 3, Andri Þór Helgason 3/1, Tómas Sigurðarson 2, Haukur Ingi Hauksson 2.
Varin skot: Jovan Kukobat 3, Róbert Örn Karlsson 2.

Tölfræði leiksins hjá HBStatz.

Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.

Olísdeild karla – fréttir.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -