Þýska landsliðið, undir stjórn Alfreðs Gíslasonar, tapaði í kvöld fyrir Evrópumeisturum Svíþjóðar, í EHF-bikarkeppni landsliða, 32:23, þegar liðin mættust í Kristianstad í Svíþjóð í fimmtu og næst síðustu umferð keppninnar. Svíar voru með átta marka forskot í hálfleik, 16:8. Svavar Ólafur Pétursson og Sigurður Hjörtur Þrastarson dæmdu leikinn.
EHF-bikarinn er keppni á milli þeirra fjögurra liða sem taka ekki þátt í undankeppni EM vegna þess að þau eru þegar örugg um sæti í keppninni
Danir unnu í Almería
Auk Þjóðverja og Svía taka Spánverjar og Danir þátt í EHF-bikarnum sem silfur- og bronsverðlaunahafa síðasta Evrópumóts. Danir unnu Spánverjar í hörkuleik í Almería á Spáni í kvöld, 31:29. Emil Jakobsen og Rasmus Lauge skoruðu sjö mörk hvor. Ferran Solé skoraði sex mörk fyrir spænska landsliðið.
Ekki með sitt allra besta
Alfreð stillti ekki upp sínu sterkasta liði í leiknum í Kristianstad. Hann gaf nokkrum yngri og óreyndari leikmönnum tækifæri enda hefur hann nýtt leiki keppninnar til þess að sjá fleiri leikmenn og freista þess um leið að auka breiddina í hópnum. Það hefur komið niður á árangrinum en þýska liðið er án stiga.
Sleit hásin?
Hinn þrautreyndi þýsku handknattleiksmaður Paul Drux meiddist í byrjun síðari hálfleiks í Kristianstad í kvöld. Óttast er að hásin hafi slitnað. Sé svo er um mikið áfall að ræða fyrir topplið þýsku 1. deildarinnar, Füchse Berlin.
Wanne markahæstur
Hampus Wanne skoraði sex mörk fyrir Svía og var atkvæðamestur. Albin Lagergren var næstur með fimm mörk. Johannes Golla og Renars Uscins skoruðu fimm sinnum hvor fyrir þýska landsliðið sem mætir spænska landsliðinu í Berlin á sunnudag.