„Úr því sem komið var og eins og leikurinn þróaðist þá er ég þokkalega sáttur með þriggja marka sigur. Ég viðurkenni fúslega að ég vildi gjarnan eiga meira forskot fyrir síðari viðureignina,“ sgaði Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari Vals í samtali við handbolta.is en lið hans vann Kristianstad HK frá Svíþjóð með þriggja marka mun, 27:24, í fyrri viðureign liðanna í 32-liða úrslitum Evrópubikarkeppni kvenna í handknattleik á laugardaginn í N1-höllinni á Hlíðarenda.
Valur sterkari á endasprettinum – með þriggja marka forystu
Eins og Ágúst Þór segir þá má e.t.v. vel við una með þriggja marka sigur í ljósi þess að Valsliðið var í tvígang marki undir um miðjan síðari hálfleik.
Síðari viðureign liðanna verður ytra á laugardaginn og ljóst að Valsliðið þarf að halda vel á spilunum til þess að vinna samanlagt og öðlast sæti í 16-liða úrslitum.
Of margir tæknifeilar
„Við gerðum alltof marga tæknifeila, ekki síst í fyrri hálfleik. Sænska liðið var fljótt að refsa okkur í kjölfarið. Segja má að við höfum verið sjálfum okkur verst að ná ekki betri tökum á leiknum þegar tök voru á og fara betur með boltann þegar hannn var í okkar höndum.
Ekkert kom okkur á óvart varðandi leikinn. Ljóst var fyrirfram að um hörkueinvígi væri að ræða og við yrðum að leika afar vel til þess að ná góðri stöðu eftir heimaleikinn. Við verðum að nýta næstu daga til að búa okkur undir síðari viðureignina,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari Íslands- og bikarmeistara Vals sem á heimaleik við ÍBV í Olísdeildinnni á miðvikudaginn áður farið verður til Kristianstad.