Þórey Anna Ásgeirsdóttir getur ekki aðeins orðið Evrópubikarmeistari með liðsfélögum sínum í Val í dag heldur er einnig mögulegt að hún verði markadrottning keppninnar. Þórey Anna stendur afar vel að vígi fyrir síðari úrslitaleikinn við spænska liðið BM Porriño í N1-höllinn klukkan 15 í dag.
Miðasala á úrslitaleikinn er á stubb.is.
12 marka forskot
Þórey Anna hefur skorað 77 mörk í 11 leikjum Vals í keppninni til þessa, 12 mörkum fleiri en Micaela Casasola leikmaður BM Porriño sem er næst á eftir. Mikið þarf að ganga á til þess að Casaola skjótist upp fyrir Þóreyju Önnu í síðasta leiknum.
Þórey Anna skoraði 11 mörk í fyrri úrslitaleiknum á Spáni á fyrir viku en fyrrgreind Casasola skoraði 10 sinnum.
Sem fyrr segir hefst úrslitaleikur Vals og BM Porriño í N1-höllinni á Hlíðarenda klukkan 15. Rimman er svo sannarlega galopin eftir jafntefli, 29:29, í fyrri viðureigninni.
Evrópubikarkeppni kvenna – fréttasíða.