Valsarinn Þorgils Jón Svölu Baldursson hefur ákveðið að hleypa heimdraganum í sumar og hefur þess vegna samið við nýliða sænsku úrvalsdeildarinnar, HF Karlskrona. Hann verður um leið samherji Ólafs Andrésar Guðmundssonar sem einnig gengur til liðs við sænska félagið í sumar. Samningur Þorgils Jóns við Karlskrona er til tveggja ára.
Þorgils Jón er 25 ára gamall hefur leikið með Val síðan 2016 og verið í sívaxandi hlutverki, jafnt í vörn sem sókn þar sem hann leikur á línunni. Ekki síst hefur Þorgils Jón verið kjölfesta í miðri og sterkri vörn Valsmanna undanfarin ár.
Valur varð Íslands- og bikarmeistari 2021 og 2022, deildarmeistari í vor og stóð í ströngu í Evrópudeildinni, eins og mörgum er e.t.v. í fersku minni.
HF Karlskrona hafnaði í öðru sæti næst efstu deildar í vor en vann OV Helsingborg í fimm leikja umspil um sæti í úrvalsdeildinni. OV Helsingborg féll úr deildinni eftir eins árs veru.