Þórir Hergeirsson, ráðgjafi á afrekssviði Handknattleikssambands Íslands og fyrrverandi landsliðsþjálfari Noregs, kom til Malmö í morgun og ætlar að fylgjast með þremur næstu leikjum íslenska landsliðsins á Evrópumótinu í handknattleik.
Þórir sagði við handbolta.is fyrir stundu þegar leiðir lágu saman að hann væri fyrst og fremst kominn til Malmö af hreinum áhuga fyrir handbolta en einnig til þess að fylgjast með íslenska landsliðinu enda í hlutastarfi sem ráðgjafi sambandsins.
Þórir var að skrá sig inn á hótel í miðborg Malmö og hafði síðan í hyggju að fara í keppnishöllina, Malmö Arena, og fylgjast með leikjum dagsins. Þar ber hæst viðureign Svíþjóðar og Íslands klukkan 17.
Þórir býr í Noregi og hefur m.a. sinnt ráðgjafarstarfi fyrir HSÍ síðan hann lét af störfum sem landsliðsþjálfari Noregs fyrir rúmu ári, þá sem sigursælasti landsliðsþjálfari sögunnar, hvort heldur í kvenna- eða karlaflokki.
Þess má geta að Janus Daði Smárason landsliðsmaður er systursonur Þóris.



