- Auglýsing -
- Auglýsing -

Þórir fagnaði þremur sigrum í Danmörku

Þórir Hergeirsson landsliðsþjálfari Noregs. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Evrópu- og heimsmeistarar Noregs í handknatteik kvenna unnu allar þrjár viðureignir sínar á fjögurra liða móti sem lauk í Ikast á Jótlandi í dag. Noregur vann Danmörku í lokaumferðinni með tveggja marka mun, 29:27, eftir að hafa verið fjórum mörkum undir að loknum fyrri hálfleik, 13:9. Lið Noregs komst í fyrsta skiptið yfir í stöðunni, 20:19, þegar síðari hálfleikur var rétt liðlega hálfnaður.


Henny Reistad var markahæst í norska landsliðinu með níu mörk en Anne Mette Hansen skoraði sjö fyrir Dani.


Norska landsliðið vann hollenska landsliðið á mótinu í gær, 27:19, og Sviss í fyrstu umferð með 17 marka mun, 39:22. Holland varð í öðru sæti eftir sigur á Sviss í dag, 38:25. Danir máttu gera sér þriðja sætið að góðu og landslið Sviss rak lestina.


Þórir Hergeirsson, landsliðsþjálfari Noregs, getur þar með farið ánægður frá fyrsta undirbúningstímabilinu fyrir titilvörnina á Evrópumeistaramótinu sem hefst 3. nóvember. Norska landsliðið kemur aftur saman í kringum 20. október þegar lokaundirbúningurinn fyrir EM hefst.


Noregur verður í riðli með Ungverjalandi, Króatíu og Sviss í A-riðli EM. Leikirnir fara fram í Ljubljana í Slóveníu. Keppt verður í hinum þremur riðlum mótsins í Celje í Slóveníu, í Skopje í Norður Makedóníu og Podgorica í Svartfjallalandi.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -