Fréttatilkynning:
Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins í handbolta, heldur hátíðarfyrirlestur íþróttafræðideildar HR í tilefni 25 ára afmælis skólans. Fyrirlesturinn verður haldinn í stofu M101 föstudaginn 26. maí klukkan 12:00-13:30. Öll velkomin meðan húsrúm leyfir.
Þórir er borinn og barnfæddur Selfyssingur og byrjaði ungur að stunda handbolta með Selfossi. Árið 1986 flutti hann til Oslóar og fór fljótlega að einbeita sér einvörðungu að þjálfun.
Þórir hefur þjálfað norska kvennalandsliðið frá árinu 2009. Árangur hans með liðið hefur verið afar eftirtektarverður; níu sigrar á stórmótum og samtals fjórtán skipti á palli á þessum fjórtán árum. Í janúar var Þórir kosinn þjálfari ársins í Noregi á Idrettsgallaen, uppgjörshátíð norskra íþrótta, annað árið í röð. Þar að auki hefur hann verið sæmdur konunglegri riddaraorðu í Noregi fyrir framlag sitt til handboltans í Noregi.
Í þessum fyrirlestri ætlar Þórir að tala um vegferð sína með landsliðinu og hvernig góð samvinna og samskipti eru lykilatriðin í því að skapa framúrskarandi liðsheild.