Þórir Hergeirsson kveður norska kvennalandsliðið í handknattleik á sunnudaginn eftir að hafa stýrt því í úrslitaleik Evrópumótsins. Noregur komst í kvöld í 13. sinn í úrslit á EM kvenna, þar af í sjötta skiptið undir stjórn Þóris, með því að leggja ungverska landsliðið, 30:22, í undanúrslitaleik í Wiener Stadthalle í Vínarborg.
Í kvöld skýrist hvort það verður danska eða franska landsliðið sem mætir Noregi í úrslitaleiknum sem hefst klukkan 17 á sunnudaginn.
Norska landsliðið byrjaði leikinn í kvöld af miklum ákafa. Liðið skoraði 11 mörk á fyrsti 20 mínútunum. Ungverjum tókst að slá vopnin úr höndum leikmanna norska landsliðsins á síðustu mínútum hálfleiksins og minnka muninn úr fimm mörkum niður í tvö, 13:11, áður en gengið var til búningsherbergja.
Snemma í síðari hálfleik var ljóst að norska liðið ætlaði ekki að leyfa Ungverjum meira en að finna reykinn af réttunum. Eftir tíu mínútna leik var forskot Noregs orðið fimm mörk á ný, 19:14. Norska vörnin og Katrine Lunde stóðu vaktina af árverkni og eftir fylgdi hraður sóknarleikur sem Ungverjar áttu engin svör við. Noregur vann því öruggan átta marka sigur, 30:22.
Lunde var valin maður leiksins. Hún varði 11 skot, 42%. Henny Reistad skoraði sjö mörk fyrir norska liðið. Emili Hovden var örugg í hægra horni og skoraði fimm mörk úr sex skotum. Thale Rushfeldt Deila skoraði einnig fimm mörk.
Katrin Klujber var markahæst í ungverska liðinu með fimm mörk. Viktória Gyori-Lukács skoraði fjögur mörk, öll í fyrri hálfleik. Petra Simon skoraði einnig fjögur mörk.
Viðureign Frakklands og Danmerkur í undanúrslitum hefst klukkan 19.30.