- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Þórir: Okkar erfiðasta próf til þessa

Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsiðsins. Mynd/EPA
- Auglýsing -

„Án ef verður þetta erfiðasti leikur okkar í mótinu fram til þessa. Fram að þessu höfum við ekki mætt neinu liði sem leikur eins öflugan varnarleik og það danska gerir um þessar mundir. Það verður virkilega áskorun fyrir okkur að brjóta dönsku vörnina á bak aftur,“ sagði Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins þegar handbolti.is sló á þráðinn til hans nú hádeginu þar sem hann var í óða önn að hnýta síðustu endana fyrir undanúrslitaleikinn við Dani á Evrópumótinu í handknattleik kvenna í kvöld. Flautað verður til leiks í Jyske Bank Boxen í Herning klukkan 19.30.

„Við ætlum okkur leggja áherslu á eigin varnarleik, ná upp markvörslu og skora eins mikið eftir hraðaupphlaup og mögulegt er. Hver mark eftir hraðaupphlaup eða í seinni bylgju mun vega þungt þegar upp verður. Þetta verður hörkuleikur þar sem smáatriðin munu vega þungt,“ sagði Þórir en lið hans hefur unnið allar sex viðureignir sínar í mótinu til þessa. Danir hafa tapað einum leik, gegn Frökkum.

„Nú kemur í ljós hvernig við bregðumst við undir pressu“


Leikstíll danska og norska landsliðsins er að ýmsu leyti ekki ólíkur. Mikið er lagt upp úr sterkum varnarleik, markvörslu og hraðaupphlaupum. „Við, Danir og Frakkar höfum leikið besta varnarleikinn til þessa ásamt Króötum, upp að vissu marki. Til viðbótar við varnarleik, markvörslu og hraðaupphlaup þá reikna ég með að mörg smærri atriði eigi eftir að vega þungt þegar upp verður staðið. Þannig er það alltaf í jöfnum leikjum eins og ég reikna með að þessi viðureign verði.“


Þórir sagði á dögunum að hans lið hefði ekki fengið mjög alvarlega mótspyrnu í mótinu. Hann er ekki í vafa um að viðureignin við Dani verði stærsta prófið sem norska liðið hafi tekist á við í mótinu.

Danir leikið fleiri jafna leiki

„Þessi leikur á vafalaust eftir að verða jafnari en fyrri leikir okkar í mótinu. Nú kemur í ljós hvernig við bregðumst við undir pressu. Sú staða hefur ekki komið upp í mótinu hjá okkur ef undan er skilinn einn hálfleikur gegn Króötum. Danir hafa leikið fleiri jafna leiki og það er ef til eitthvað sem þeir hafa framyfir okkur. En um leið má ekki gleyma því að mínir leikmenn hafa flestir hverjir leikið jafna leiki áður og vita vel út hvað þeir eru að fara. Nú þarf að leita í reynslubankann,“ segir Þórir sem m.a. hefur innan sinna raða fimm leikmenn sem tóku þátt í undanúrslitaleiknum við Dani á sama stað fyrir áratug.

„taka eina sókn og síðan eina vörn“

„Það vill enginn leikmaður tapa leik þegar komið er svo langt í mótinu,“ sagði Þórir og bætir við að miklu máli skipti að menn einbeiti sér að leiknum og láti ekki hug falla þótt ein sókn eða ein vörn gangi ekki upp. Leikurinn standi yfir í 60 mínútur og mikilvægt sé að vera á tánum frá upphafi til enda.

„Þegar út leikinn verður komið má ekki fókusinn vera á að vinna eða tapa, heldur á þau verkefni sem eru fyrir framan menn allan leikinn, taka eina sókn og síðan ein vörn og spilla spennustigið. Vera í núninu,“ sagði Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins í samtali við handbolta.is fyrir stundu.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -