Selfyssingurinn Þórir Hergeirsson hefur valið 19 leikmenn sem koma saman til æfinga síðar í þessum mánuði áður en heimsmeistaramótið hefst 29. nóvember. Noregur er ríkjandi Evrópumeistari.
Mesta athygli vekur að Þórir kaus að velja fjóra markverði í æfingahópinn. Hann gerir það vegna óvissu sem ríkir um þátttöku hinnar þrautreyndu Katrine Lunde. Hún er meidd og alveg óvíst hvort hún verði klár í slaginn í upphafi heimsmeistaramótsins sem fram fer í Danmörku, Noregi og í Svíþjóð. Þess utan er Silje Solberg, sem staðið hefur vaktina með Lunde síðustu árin, í barnsburðarleyfi.
Að öðru leyti kemur fátt á óvart. Camilla Herrem og Sanna Solberg-Isaksen mæta til leiks eftir að hafa verið fjarverandi á EM á síðasta ári. Báðar voru þá óléttar.
Einn nýliði er í hópnum, Maja Furu Sæteren leikmaður Larvik. Sæteren hefur farið mikinn í norsku úrvalsdeildinni á leiktíðinni og skorað 9,7 mörk að jafnaði í leik.
Áður en norska landsliðið mætir Austurríki, Grænlandi og Suður Kóreu í riðlakeppni HM tekst það á við landslið Angóla, Íslands og Póllands í æfingamóti í Noregi 23. til 26. nóvember.
HM-hópur Noregs
Markverðir:
Marie Davidsen, CSM Bukarest.
Katrine Lunde, Vipers.
Olivia Lykke Nygaard, Storhamar.
Eli Marie Raasok, Storhamar.
Aðrir leikmenn:
Stine Ruscetta Skogrand, Ikast.
Nora Mørk, Team Esbjerg.
Stine Bredal Oftedal, Györi Audi ETO.
Kristine Breistøl, Team Esbjerg.
Ingvild Bakkerud, Ikast.
Henny Ella Reistad, Team Esbjerg.
Thale Rushfeldt Deila, Odense Håndbold.
Kristina Sirum Novak, Sola HK.
Maja Furu Sæteren, Larvik HK.
Camilla Herrem, Sola HK.
Sanna Solberg-Isaksen, Team Esbjerg.
Emilie Margrethe Hovden, Györi Audi ETO.
Maren Aardahl, Odense Håndbold.
Kari Brattset Dale, Györi Audi ETO.
Vilde Mortensen Ingstad, CSM Bucuresti.