Norska landsliðið í handknattleik kvenna, sem Þórir Hergeirsson þjálfar, hafnaði í Norðurlandariðli þegar dregið var í handknattleikskeppni Ólympíuleikanna sem fram fara í Frakklandi í sumar. Norska landsliðið mætir danska landsliðinu og því sænska en lið þjóðanna þriggja voru í þremur af fjórum efstu sætunum á heimsmeistaramótinu sem fram fór undir lok síðasta árs.
Tólf landslið taka þátt í handknattleikskeppni kvenna á leiknum, jafn mörg og í karlaflokki.
Auk Norðurlandanna þriggja verða landslið Slóveníu, Suður Kóreu og Þýskalands í A-riðli keppninnar.
(Hér fyrir neðan er nokkrar myndir frá athöfninni þegar Ólympíueldurinn var tendraður í Ólympíu í Grikklandi í gær, 100 dögum áður en Ólympíuleikarnir hefjast í París).
Heimaliðið í B-riðli
Heimsmeistarar Frakka verða í B-riðli ásamt Ungverjalandi, Hollandi, Spáni, Brasilíu og Angóla. Frakkar urðu Ólympíumeistarar í kvenna- og karlaflokki á Ólympíuleikunum í Tókýó sumarið 2021.
Flautað verður til leiks í handknattleik kvenna 26. júlí í sumar. Úrslitaleikurinn fer fram 10. ágúst, daginn áður en leikið verður til úrslita í karlaflokki.
Sjá einnig:
Þrír íslenskir handboltaþjálfarar verða á Ólympíuleikunum í París
Íslensku þjálfararnir mætast á Ólympíuleikunum