Karlalið Þórs á Akureyri er komið í sóttkví og mun ekki æfa aftur fyrr en eftir helgi, að því gefnu að enginn leikmaður liðsins hafi smitast af kórónuveirunni. Þetta staðfestir Þorvaldur Sigurðsson, annar þjálfari Þórs í samtali við útvarpsþáttinn Handboltinn okkar sem verður sendur út á SportFM 102,5 klukkan 14 í dag.
Þórsliðið æfði síðast á þriðjudaginn en eftir æfinguna var staðfest smit hjá einni manneskju sem tengist einum innan Þórsliðsins, eftir því sem næst verður komist. Þetta tiltekna smit tengist ekki æfingum liðsins.
Allir leikmenn hafa farið í skimun og bíða niðurstöðu eftir því sem næst verður komist. Ekki leikur grunur um smit á meðal leikmanna og eru allir einkennalausir. Til þess að hafa vaðið fyrir neðan sig þá var ákveðið að fella niður æfingar hjá liðinu fram yfir helgi meðan gengið er úr skugga um að enginn leikmaður hafi smitast. Einnig verður æfingahúsnæði Þórsliðsins lokað og það sótthreinsað. Gangi allt að óskum vonast Þorvaldur til að æfingar hefjist á nýjan leik á mánudaginn.