- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Þórsarar skelltu Gróttumönnum

Handknattleiksdeild Þórs á Akureyri býr við mikið aðstöðuleysi. Mynd/Skapti Hallgrímsson, akureyri.net
- Auglýsing -

Þórsarar á Akureyri eru ekki dauðir úr öllum æðum þótt tímabilið hafi verið þeim á margan hátt mótdrægt. Þeir unnu í dag sætan sigur á Gróttu, 18:17, í hörkuleik í Olísdeild karla í Íþróttahöllinni á Akureyri. Þetta var annar sigur Þórs í deildinni á leiktíðinni. Þór hefur þar með fjögur stig í næsta neðsta sæti deildarinnar þegar níu leikjum er lokið og er aðeins stigi á eftir Gróttu sem situr í 10. sæti.

Gísli Jörgen Gíslason, sem var um mánaðarmótin lánaður til Þórs frá FH, skoraði sigurmarkið þegar um mínúta var til leiksloka. Hann vann einnig vítakastið sem Ihor Kopyshynskyi skoraði úr 17. mark Þórs og jafnaði metin.

Gróttumaðurinn Lúðvík Thorberg Arnkelsson átti þess kost að jafna metin á síðustu sekúndum þegar hann fór inn úr vinstra horni en brást bogalistin.

Lúðvík Thorberg Arnkelsson í opnu færi undir lok leiksins í Höllinni á Akureyri. Mynd/Skapti Hallgrímsson, akureyri.net

Eins og úrslitin gefa til kynna var ekki um hraðan leik að ræða í Íþróttahöllinni í dag. Grótta var marki yfir að loknum fyrri hálfleik, 10:9. Jafnt var á flestum tölum. Markverðir beggja liða voru í essinu sínu. Jovan Kukobat var með ríflega 46% hlutfallsmarkvörslu milli stanganna í Þórsmarkinu. Hinum megin vallarins átti Stefán Huldar Stefánsson enn einn stórleikinn fyrir Gróttu og var með ríflega 47% hlutfallsmarkvörslu.

Leikmenn Þórs fagna sigri en Gróttu menn hnípnir eins og gefur að skilja. Mynd/Skapti Hallgrímsson, akureyri.net

Athygli vekur að Valþór Atli Guðrúnarson lék með Þórsliðinu í dag en hann fór úr axlarlið í viðureign Vals og Þórs 25. janúar.

Mörk Þórs: Ihor Kopyshynskyi 6/2, Gísli Jörgen Gíslason 3, Arnór Þorri Þorsteinsson 3, Garðar Már Jónsson 2, Valþór Guðrúnarson 1, Karolis Stropus 1, Sigurður Kristófer Skjaldarsson 1, Hlynur Elmar Matthíhasson 1.
Varin skot: Jovan Kukobat 15, 46,9%.
Mörk Gróttu: Lúðvík Thorberg Arnkelsson 3, Jakob Ingi Stefánsson 3, Andri Þór Helgason 2, Gunnar Dan Hlynsson 2, Jóhann Reynir Gunnlaugsson 2, Satoru Gogo 2, Birgir Steinn Jónsson 1, Ólafur Brim Stefánsson 1, Daníel Örn Griffin 1.
Varin skot: Stefán Huldar Stefánsson 16, 47,1%.

Öll tölfræði leiksins hjá HBStatz.

Arnar Daði Arnarsson átti skiljanlega erfitt með að leyna vonbrigðum sínum eftir tapið fyrir Þór í dag. Mynd/Skapti Hallgrímsson, akureyri.net

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -