Ívar Benediktsson skrifar frá Tíblisi, [email protected]
„Ég er að sjálfsögðu klár í aðra skotveislu ef kallið kemur,“ sagði stórskyttan Þorsteinn Leó Gunnarsson með bros á vör við handbolta.is spurður hvort hann væri tilbúinn að þruma boltanum á mark Georgíumanna í dag eins og hann gerði á móti Bosníu í Laugardalshöll á miðvikudaginn. Þorsteinn skoraði þá átta mörk í níu skotum í síðari hálfleik. Vissu Bosníumenn ekki hvaðan á þá stóð veðrið.
„Við erum að æfa okkur saman til þess að verða betri hver svo sem leikstjórnandinn er,“ sagði Þorsteinn Leó en við má búast að Haukur Þrastarson fái stærra hlutverki í landsliðinu í fjarveru Gísla Þorgeirs Kristjánsssonar. Þorsteinn Leó sagðist vera að kynnast því að leika með strákunum einum af öðrum enda hefur hann aðeins leikið fjóra landsleiki og æfingarnar með landsliðinu eru ekki margar. „Við náum jafnt og þétt betur saman,“ sagði Þorsteinn Léo sem segir markmið fararinnar til Tíblisi aðeins vera eitt, sigur.
Fékk versta sætið
Þorsteinn Léó fékk eitt versta sætið í flugvélinni frá München til Tíblisi í fyrrakvöld og nótt sem varð lengri ferð en reiknað var með. Þorsteinn, sem er 208 cm á hæð var í 39. og öftustu röð við glugga og fékk sig hvergi hreyft. Gat hann ekki einu sinni hallað aftur sætinu. Spurður hvernig honum liði daginn eftir flugið svaraði Þorsteinn:
„Ég er svolítið stífur í bakinu en ég verð orðinn góður á morgun. Ég er handviss um það,“ sagði stórskyttan Þorsteinn Leó Gunnarsson eldsprækur í samtali við handbolta.is í Tíblisi síðdegis í gær.