Þorvaldur Örn Þorvaldsson línumaður Vals fer á morgun til Gdansk í Póllandi þar sem hann skoðar aðstæður hjá úrvalsdeildarliðinu GE Wybrzeże Gdansk með hugsanlegan samning í huga frá og með næsta keppnistímabili. Þorvaldur verður ytra fram á sunnudag.
Kom upp á HM í sumar
„Þegar ég var með HM 21 árs landsliðinu í Póllandi í sumar hafði umboðsmaður samband við mig. Við höfum síðan verið í sambandi og heimsókn mín til Póllands á morgun er í tengslum við þann áhuga,“ sagði Þorvaldur Örn við handbolta.is í morgun.
„Ég er alveg til í skoða þennan möguleika þótt mér líði mjög vel hjá Val,“ sagði Þorvaldur Örn. „Ég fer og skoða aðstæður hjá félaginu, hitti forráðamenn þess og tek þátt í einni eða tveimur æfingum. Eftir það sjáum við til hvað setur,“ sagði Þorvaldur Örn.
Situr í þriðja sæti
GE Wybrzeże Gdansk er í þriðja sæti pólsku úrvalsdeildarinnar um þessar mundir á eftir Wisla Plock og Indurstria Kielce sem borið hafa höfuð og herðar yfir önnur lið í pólsku úrvalsdeildinni árum saman.



