„Við áttum alveg möguleika á að fá eitthvað út úr leiknum þótt lokatölurnar segi kannski annað. Eyjamenn stungu af síðustu tíu mínúturnar en fram að því vorum við í hörkuleik. Við vorum kannski orðnir þreyttir, ef til vill varð reynsluleysi okkur að falli. Eflaust má taka fleira til en þegar upp var staðið voru gæðin sennilega meiri hjá ÍBV-liðinu,“ sagði Einar Jónsson í samtali við handbolta.is í kvöld eftir sex marka tap Fram á móti ÍBV, 32:38, í Úlfarsárdal í 10. umferð Olísdeildar karla í handknattleik.
Fram er þar með í fimmta sæti deildarinnar með 11 stig en ÍBV í fjórða sæti með stigin sín 13.
Færanýting skipti máli
Einar sagði að miklu hefði munað að ÍBV tókst að nýta sín tækifæri vel þegar miklu máli skipti meðan Fram brenndi af upplögðum marktækifærum. Það skipti miklu máli fyrir lið eins og Fram í þessu tilfelli sem varð í eltingaleik frá upphafi en munurinn var frá einu og upp í þrjú mörk lengst af, ÍBV í hag.
Þrír fjarverandi
„Við áttum möguleika á að jafna en því miður þá fórum við með tvö eða þrjú tækifæri og eitt vítakast. ÍBV svaraði með að ná þriggja eða fjögurra marka forystu. Þá var leikurinn orðinn erfiður fyrir okkur,“ sagði Einar sem vantaði Rúnar Kárason, Marko Coric og Lárus Helga Ólafsson í kvöld. Rúnar og Lárus er lítillega meiddir að sögn Einars en Coric er veikur.
„Ég ætla að ekki að skýla mér á bak við fjarveru þeirra þriggja. Við erum með hrikalega flottan hóp en því miður dugði það ekki til að þessu sinni,“ sagði Einar Jónsson þjálfari Fram í samtali við handbolta.is í kvöld.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.
Mörk Fram: Reynir Þór Stefánsson 10, Ívar Logi Styrmirsson 8/3, Stefán Orri Arnalds 5, Marel Baldvinsson 2, Tryggvi Garðar Jónsson 2, Jóhann Karl Reynisson 1, Daníel Stefán Reynisson 1, Arnar Snær Magnússon 1, Eiður Rafn Valsson 1, Bjartur Már Guðmundsson 1.
Varin skot: Breki Hrafn Árnason 4, 15,4% – Arnór Máni Daðason 2, 11,1%.
Mörk ÍBV: Elmar Erlingsson 9, Daniel Esteves Vieira 5, Arnór Viðarsson 5, Gauti Gunnarsson 4, Dánjal Ragnarsson 3, Ívar Bessi Viðarsson 2, Andrés Marel Sigurðsson 2, Kári Kristján Kristjánsson 2, Sveinn Jose Rivera 2, Breki Þór Óðinsson 1, Dagur Arnarsson 1, Sigtryggur Daði Rúnarsson 1/1, Ísak Rafnsson 1.
Varin skot: Petar Jokanovic 16, 34,8%.
Öll tölfræði leiksins er hjá HBStatz.