Ýmir Örn Gíslason og samherjar í Göppingen gerðu þriðja jafntefli sitt í fimm fyrstu leikjum deildarinnar í gærkvöld þegar grannliðin í suður Þýskalandi, Stuttgart og Göppingen, skildu jöfn, 28:28, í háspennuleik. Marcel Schiller jafnaði metin, 28:28, úr vítakasti þegar leiktíminn var úti. Áður hafði Kai Häfner komið Stuttgart yfir 16 sekúndum fyrir leikslok.
Göppingen er í 7. sæti með fimm stig að loknum fimm leikjum.
Ýmir Örn fyrirliði Göppingen skoraði þrjú mörk í viðureigninni. Ludvig Hallbäck var markahæstur með sjö mörk.
Fyrrgreindur Häfner skoraði 11 mörk fyrir Stuttgart.
Annað tapið í vikunni
Hannover-Burgdorf tapaði fyrir THW Kiel, 40:34, á heimavelli en þetta var annað tap liðsins í vikunni. Á mánudaginn beið Hannover-Burgdorf lægri hlut í heimsókn til Flensburg, 37:29.
Heiðmar Felixson er aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf. Liðið hefur aðeins tvö stig eftir fjóra leiki í 16. sæti af 18 liðum.
Stórleikur hjá Elias
Marius Steinhauser skoraði 13 mörk fyrir Hannover-Burgdorf. Færeyingurinn Elias Ellefsen á Skipagøtu átti stórleik með 14 mörkum og þremur stoðsendingum. Ekkert markanna skoraði Elias úr vítaköstum.
THW Kiel er eitt þriggja lið sem ekki hefur tapað leik til þessa í þýsku 1. deildinni. Hin eru SC Magdeburg og Flensburg.
Stöðuna í þýsku 1. deildinni og í fleiri deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.




