Línumaðurinn öflugi, Sveinn Jóhannsson, hefur samið við norska meistaraliðið Kolstad í Þrándheimi. Sveinn kemur til félagsins í sumar og verður þriðji Íslendingurinn í herbúðum félagsins á næstu leiktíð. Fyrir er hjá Kolstad landsliðsmaðurinn Sigvaldi Björn Guðjónsson.
Auk Sveins bætist Valsmaðurinn Benedikt Gunnar Óskarsson í hópinn hjá Kolstad í sumar. Benedikt Gunnar gekk frá sínum samningi í upphafi ársins.
Sveinn hefur undanfarið hálft annað ár leikið með GWD Minden í Þýskalandi. Þar áður var hann hjá Skjern og SønderjyskE í Danmörku. Einnig lék Sveinn með Fjölni og ÍR hér á landi áður en hann flutti út sumarið 2019.
Sveinn hefur leikið 12 A-landsleiki og skorað í þeim 24 mörk. Hann var með á EM 2020. Fyrir EM 2022 meiddist Sveinn alvarlega á hné í æfingabúðum landsliðsins og hefur ekki verið inni í myndinni hjá þjálfurum A-landsliðsins síðan.
Kolstad varð norskur meistari og bikarmeistari fyrir ári og hefur þegar endurtekið leikinn á þessari leiktíð. Auk þess er Kolstad með vænlega stöðu eftir sigur á Drammen í fyrri viðureign liðanna í undanúrslitum úrslitakeppninnar í Noregi.
Kolstad lék í Meistaradeild Evrópu í vetur en féll úr leik að lokinni riðlakeppninni. Liðið á sæti næsta víst í Meistaradeild Evrópu á næsta keppnistímabili.
Christian Berge fyrrverandi landsliðsþjálfari Noregs er þjálfari Kolstad og með liðinu leika nokkrir bestu handknattleiksmenn Noregs, s.s. Sander Sagosen.