Heims- og Evrópumeistarar Noregs, undir stjórn Þóris Hergeirssonar, vann þriðja og síðasta örugga sigurinn í C-riðli heimsmeistaramótsins í handknattleik í kvöld þegar liðið lagði Suður Kóreu, 33:23, í DNB Arena í Stafangri. Yfirburðir norska liðsins voru mjög miklir í leiknum og í raun hefði sigurinn getað orðið enn stærri. Staðan í hálfleik var 20:11.
Markvörðurinn þrautreyndi, Katrine Lunde, mætti til leiks í kvöld og stóð í marki norska landsliðsins nær allan leikinn. Ekki var að sjá að Lunde hefði ekki leikið handknattleik í margar vikur. Hún varði 11 skot, 39%. Olivia Lykke Nygaard leysti Lunde af um skeið í markinu. Stórskyttan Nora Mørk kom lítið við sögu og óvíst að hún komi af krafti inn fyrr en líður lengra inn á mótið.
Camilla Herrem var markahæst með sjö mörk og var valin maður leiksins við mikla kátinu heimafólks á áhorfendapöllunum enda um heimakonu að ræða. Herrem býr í Sola og leikur með samnefndu liði. Maren Aardahl, Ingvild Bakkerud og Sanna Solberg-Isaksen skoruðu fjögur mörk hver. Eun Hee Ryu skoraði fimm sinnum fyrir lið Suður-Kóreu.
Austurríki í milliriðla
Fyrr í dag vann Austurríki stórsigur á Grænlandi í sama riðli, 46:23, og tryggði sér sæti í milliriðli sem fram fer í Þrándheimi ásamt norska landsliðinu og Suður Kóreu. Grænland tekur sæti í keppninni um forsetabikarinn.
Spánverjar áfram með fullt hús
Keppni lauk einnig í G-riðli heimsmeistaramótsins sem leikinn var í Frederikshavn. Spánverjar mörðu sigur á Brasilíu, 27:25, eftir að hafa verið undir þegar skammt var til leiksloka. Brasilíska liðið gat jafnað metin á síðustu mínútunni en markvörður spænska liðsins, Darly Zoqbi de Paula, varði skot og sá til þess að spænska liðið náði að skora 27. markið og innsigla sigurinn.
Brasilíska liðið heldur engu að síður áfram í milliriðlakeppnina eins og Spánn. Úkraína náði þriðja sæti riðilsins með öruggum sigri á Kasakstan, 37:24. Kasakar taka þátt í keppninni um forsetabikarinn.
Danska landsliðið er einnig öruggt um sæti í milliriðlum eftir sigur á Chile, 46:11, í Herning í kvöld. Rúmenar eru einnig öruggir áfram úr riðlinum eftir öruggan sigur á Serbíu, 37:28. Serbar, sem léku vel gegn Dönum í fyrrakvöld, náðu sér ekki á strik í leiknum í dag.