Ekki hefur gengið sem best hjá Íslendingaliðinu Ribe-Esbjerg í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik karla á leiktíðinni. Þess vegna var kærkomið hjá leikmönnum að fagna í gærkvöldi þegar sigur vannst á heimavelli gegn Sjálandsliðinu TMS Ringsted, 36:29.
Sem stendur er Ribe-Esbjerg í 12. sæti af 14 liðum. Kolding og Grindsted eru í tveimur neðstu sætunum. Síðarnefnda liðið tapaði í gær fyrir TTH Holstebro. Kolding mætir Guðmundi Braga Ástþórssyni og félögum í Bjerringbro/Silkeborg í grannaslag í Kolding í kvöld.
Elvar Ásgeirsson lét til sín taka í leiknum í gær. Hann skoraði fjögur mörk úr fjórum skotum fyrir Ribe-Esbjeg. Einnig átti hann eina stoðsendingu og var einu sinni vikið af leikvelli.
Ágúst Elí Björgvinsson var í marki Ribe-Esbjerg stóran hluta leiksins og varði 8 skot, 25%. Þar af varði Hafnfirðingurinn eitt vítakast. Andreas Søgaard skoraði níu mörk fyrir Ribe-Esbjerg og var markahæstur.
Arnór Atlason stýrði TTH Holstebro til stórsigurs á heimavelli gegn Grindsted GIF, 37:27. Áfram er TTH Holstebro í 9. sæti deildarinnar, rétt utan við úrslitakeppnissæti en skammt er í áttunda sætið, aðeins sjónarmunur, auk þess sem sjö umferðir eru eftir óleiknar.
Hinn ungi handknattleiksmaður, Jón Ísak Halldórsson, var ekki í leikmannahópi TTH Holstebro í gær.
Staðan í dönsku úrvalsdeildinni: