Ekkert verður af því að heil umferð fari fram í Olísdeild kvenna í handknattleik á morgun eins og til stóð. Þegar hefur einni viðureign verið frestað, leik Íslands- og bikarmeistara KA/Þórs og ÍBV. Smit er komið upp í herbúðum Íslandsmeistaranna, eftir því sem mótanefnd HSÍ greinir frá í tilkynningu.
Uppfært kl. 16.30 – föstudaginn 4. febrúar:
Mótanefnd HSÍ var að tilkynna að því miður verði einnig að fresta leik Fram og Stjörnunnar sem stóð fyrir dyrum á morgun. Kórónuveiran heldur áfram að setja strik í reikninginn en smit mun vera meðal leikmanna Fram.
Ennþá liggur ekki fyrir hvenær ÍBV-liðið sækir KA/Þórsliðið heim en það skýrist á næstunni.
Samhliða frestun leiks KA/Þórs og ÍBV hefur leik HK og KA/Þórs sem átti að fara fram á næsta miðvikudag einnig verið slegið á frest. Vegna þess þá skapaðist rými á miðvikudaginn til þess að setja viðureign Stjörnunnar og HK á dagskrá klukkan 19 í TM-höllinni í Garðabæ. Þeim leik var frestað í síðasta mánuði þegar veiran lék lausum hala í herbúðum HK.
Leikir í Olísdeild kvenna á morgun:
Varmá: Afturelding – Valur, kl. 13.30.
Ásvellir: Haukar – HK, kl. 18.
Stöðuna og næstu leiki í Olísdeild kvenna má sjá hér.