Eftir að hafa losnað út eftir 10 daga sóttkví þá verða Aron Pálmarsson og samherjar í Barcelona að leika þrjá leiki á þremur dögum í röð. Á fimmtudaginn taka þeir á móti danska meistaraliðinu Aalborg í Meistaradeild Evrópu. Daginn eftir stendur fyrir dyrum viðeign við Benidorm í spænsku 1. deildinni á heimavelli en leiknum var frestað um þar síðustu helgi þegar kórónuveirusmit kom upp í herbúðum Barcelona-liðsins.
Á laugardaginn er á áætlun spænska handknattleikssambandsins að Barcelona sæki lið Cisne heim um miðjan dag. Cisne er ekki beinlínis í nágrenni Barcelona-borgar svo ljóst er að nokkurt ferðalag bíður leikmanna Barcelona í þriðja leikinn á þremur dögum í röð. Cisne er með bækistöðvar rétt norðan Vígo við Atlantshafsströnd Spánar.