Þrjár öflugar og reyndar handknattleikskonur, Elísa Elíasdóttir, Mariam Eradze og Þórey Anna Ásgeirsdóttir fóru ekki með Íslands- og Evrópubikarmeisturum Vals til Hollands í morgun. Valsliðið mætir hollensku meisturunum JuRo Unirek VZV í bænum ‘t Veld á laugardaginn í fyrstu umferð Evrópubikarkeppni kvenna í handknattleik. Flautað verður til leiks klukkan 17.


Anton Rúnarsson þjálfari Vals segir óvíst hversu lengi Elísa, Mariam og Þórey Anna verða frá keppni. Sú síðastnefnda er með brotinn þumalfingur á vinstri hönd og varð að draga sig út í landsliðinu í síðustu viku ásamt Elísu.
Ekki eingöngu slæm tíðindi
Ekki er aðeins slæmar fréttir úr herbúðum Vals fyrir Evrópuleikinn á laugardaginn. Landsliðskonan Lilja Ágústsdóttir lék með Val í gærkvöld gegn ÍR í Olísdeildinni og er klár í slaginn í Hollandi á laugardaginn. Þátttaka Lilju í leiknum við ÍR í gærkvöld var sú fyrsta með aðalliði Vals frá í síðari viðureigninni við spænska liðið Porrino í úrslitum Evrópubikarkeppninnar í N1-höllinni 17. maí.

Einnig var Thea Imani Sturludóttir með Val í fyrsta sinn á leiktíðinni í gærkvöld. Hún lék í um 10 mínútur. „Thea er hægt og bítandi að komast af stað aftur,“ sagði Anton sem er vongóður um að landsliðskonan nái sér jafnt og þétt á strik á næstu vikum. Farið verður í engu óðslega.
Nýtum hópinn
„Í þessu ástandi á leikmannahópnum okkar þá verða yngri stelpurnar að grípa boltann og taka við stærri hlutverkum. Við notum hópinn óhikað. Annað er ekki í stöðunni,“ segir Anton Rúnarsson þjálfari Vals í samtali við handbolta.is í dag, skömmu eftir komuna til Hollands.
