- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Þrjú rauð spjöld og annar dómarinn rauk á dyr

Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

Upp úr sauð á Varmá í Mosfellsbæ í gærkvöld þegar ungmennalið Aftureldingar og HK áttust við í 2. deild karla. Rauða spjaldið fór þrisvar á loft og sú óvenjulega uppákoma átti sér stað að annar dómarinn lagði niður störf, stakk flautinni í vasann og rauk á dyr. Varð að gera langt hlé á leiknum í síðari hálfleik meðan menn náðu áttum. Átti það ekki síst við um dómarann sem lét ekki á sér kræla aftur fyrr en eftir drykklanga stund.


Sumir segja að hléið hafi staðið yfir í tíu mínútur, aðrir að það hafi varað lengur, jafnvel í 15 til 20 mínútur.

Allt fór í bál og brand

Upphafið að þessum ósköpum er rakið til að Aftureldingarmaður fékk rautt spjald fyrir að slá til eins leikmanns HK. Ekki virtust allir vera allskostar ánægðir með þá ákvörðun dómaranna. Spöruðu menn síst stóru orðin, utan vallar sem innan, sem varð til þess að annar dómarinn virtist tapa nauðsynlegri yfirvegun og greip hann til þess ráðs að veifa rauða spjaldinu tvisvar sinnum til viðbótar. Fylgdu tveir Aftureldingarmenn í kjölfar þess sem fyrst fékk rauða spjaldið.


Ekki lægði öldurnar strax eftir útbýtingu rauðra spjalda. Greip þá annar dómarinn til þess að ráðs að yfirgefa keppnissalinn. Mun hann hafa talið öryggi sínu ógnað. Hinn dómarinn lét sér lítt bregða og var áfram í salnum meðan menn slettu köldu vatni í blóðið og freistuðu þess að ná áttum.

Þráðurinn var tekinn upp

Dómarinn sem gekk á dyr sá sig um hönd að góðri strund liðinni og mætti á ný til leiks eins og ekkert hefði ískorist. Var þá þráðurinn tekinn upp við leikinn sem var hálfkaraður þegar upp úr sauð. Lauk leiknum sem betur fer án frekari uppákoma. HK vann, 38:31.


Þetta var fyrsta tap Aftureldingar í deildinni í fjórum leikjum. HK er þar með efst og taplaust með sex stig eftir þrjá leiki.

Afturelding er næst á eftir með sex stig að loknum fjórum viðureignum.


Víst er að fróðlegt verður að fylgjast með hvort þessi uppákoma berist inn á borð aganefndar HSÍ þegar nefndin kemur saman í næstu viku. Ekki verður síður áhugavert að sjá hvernig greitt verður úr málum því eins og einn heimildarmanna handbolta.is sagði; sjaldan veldur einn þá tveir deila.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -