- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Þrjú þýsk lið og eitt rúmenskt í undanúrslitum

Teitur Örn Einarsson leikmaður Flensburg. Mynd/Flensburg
- Auglýsing -

Þrjú þýsk lið tyggðu sér í kvöld sæti í undanúrslitum Evrópudeildarinnar í handknattleik karla þegar síðari leikir átta liða úrslita fóru fram. Þetta eru Flensburg, Füchse Berlin og Rhein-Neckar Löwen. Fjórða liðið í undanúrslitum er Dinamo Búkarest sem lagði Skjern, 38:34, í Danmörku í kvöld eftir að hafa unnið fyrri leikinn á heimavelli með eins marks mun.

Undanúrslit og úrslitaleikirnir fara fram í Barclays Arena í Hamborg 25. og 26. maí en dregið verður til undanúrslita á föstudaginn. Füchse Berlin vann keppnina á síðasta ári.

Naumur sigur nægði ekki

Eftir þriggja marka tap í Þýskalandi í síðustu viku þá dugði Orra Frey Þorkelssyni og samherjum í Sporting skammt að vinna Rhein-Neckar Löwen á heimavelli í kvöld með einu marki, 29:28. Eftir góða frammistöðu í keppninni í vetur þá verða leikmenn Sporting að sætta sig við að láta staðarnumið í keppninni. Orri Freyr skoraði þrjú mörk í leiknum í kvöld.

Ýmir Örn Gíslason stóð fastur fyrir í vörn Rhein-Neckar í Lissabon í kvöld og var m.a. tvisvar vikið af leikvelli. Tobias Reichmann var markahæstur með sjö mörk. Francisco Costa skoraði 11 mörk fyrir Sporting.

Rólegir eftir 11 marka sigur

Teitur Örn Einarsson skoraði þrjú mörk fyrir Flensburg sem tapaði fyrir Sävehof í Flensborg, 29:28. Ellefu marka sigur Teits og félaga í fyrr viðureigninni í Svíþjóð fyrir viku gerði að verkum að þeir gátu slakað töluvert á í kvöld.

Tryggvi Þórisson skoraði ekki fyrir sænsku meistarana. Hann kom talsvert við sögu í vörninni og uppskar m.a. gult spjald.

Engin markvarsla í fjarveru Viktors

Í fjarveru Viktors Gísla Hallgrímssonar var markvarslan engin hjá Nantes í kvöld þegar liðið tók á móti Füchse Berlin og tapað með sjö marka mun, 37:30. Fyrri viðureignin í Berlín endaði með jafntefli og því stóð Nantes-liðið ekkert illa að vígi. Liðinu voru hinsvegar allar bjargir bannaðar í kvöld. Leikmenn Berlínarliðsins léku við hvern sinn fingur og unnu sannfærandi sigur.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -