- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Þungt verkefni en um leið spennandi og skemmtilegt

Arnar Pétursson landsliðsþjálfari og leikmenn fara yfir málin. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Það fylgir því alltaf einhver hausverkur að velja keppnishóp, ekki síst núna þegar við tökum þátt í HM í fyrsta sinn í 12 ár. Það er að mörgu að hyggja auk þess sem margir leikmenn stefna á vera með. Að skilja leikmenn eftir heima er meðal þess sem er erfitt þegar hópur eins og þessi er settur saman,“ sagði Arnar Pétursson þjálfari kvennalandsliðsins í handknattleik eftir að hann tilkynnti í gær um val á 18 leikmönnum til þátttöku á heimsmeistaramótinu sem hefst í Danmörku, Noregi og í Svíþjóð 29. nóvember.

Hlakkar til

„Ég er ánægður með hópinn og hlakka til að takast á við verkefnið með þessum leikmönnum sem ég hef valið,” sagði Arnar ennfremur. Hópinn er að finna hér en hann er skipaður sömu konum og fóru til Færeyja um miðjan síðasta mánuð til leiks í undankeppni Evrópumótsins.

Arnar segir að þátttakan á HM verði mikill lærdómur fyrir leikmenn landsliðsins og hann sjálfan. Allir öðlist mikla reynslu sem nýtist vonandi á næstu árum en stefnan hefur verið tekin á þátttöku á Evrópumeistaramótinu að ári liðnu.

Sandra Erlingsdóttir, Andrea Jacobsen og Hildigunnur Einarsdóttir landsliðskonur taka þátt í HM. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Þroskandi

„Við höfum verið á ákveðinni leið undanfarin ár. Mér finnst við taka skref til framfara í hvert skiptið sem við komum saman. Nú fáum við alvöru verkefni sem verður þungt en að sama skapi spennandi og skemmtilegt. Ég er sannfærður um að það muni þroska hópinn og gera hann sterkari,“ sagði Arnar ennfremur.

Leikir Íslands í D-riðli HM:
30. nóv.: Slóvenía – Ísland, kl. 17.
2. des.: Ísland – Frakkland, kl. 17.
4. des.: Angóla – Ísland, kl. 17.
- Leikið verður í Stavanger Idrettshall (DNB-Arena) sem rúmar 4.100 áhorfendur í sæti.
- Að riðlakeppninni lokinni heldur íslenska landsliðið áfram í milliriðlakeppni HM eða leikur um sæti 25 til 32.
Katrín Tinna Jensdóttir og Sunna Gestsdóttir eiga eftir að stíga margan dans saman í vörn í íslenska landsliðsins á HM. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Ekki aðeins úrslitin

Arnar segir að andstæðingarnir í riðlinum á HM séu sterkir, Frakkar, Slóvenar og Afríkumeistarar Angóla. „Við megum ekki eingöngu horfa á úrslitin þegar á hólminn verður komið heldur á það sem við verðum að gera í hverjum leik, jafnt í vörn sem sókn, og ná eins miklum árangri og hægt er. Við verðum að spila þannig að leikmönnum liði vel á vellinum. Þetta verður mikil áskorun fyrir leikmennina. Þátttakan mun verður erfið en að sama skapi mikilvæg. Ef okkur tekst að nýta þátttökuna eins vel og hægt er, þannig að leikmenn leggi allt í sölurnar og leikum okkar bolta með aga og skipulagi samkvæmt þeim áherslum sem við höfum unnið að þá mun þetta mót skilja eftir sig fullt að góðum hlutum,“ sagði Arnar og bætti við.

„Við verðum að nýta þetta mót mjög vel til þess að getað tekið næstu skref á leið okkar.“

Tveir þriðju leika heima

Breiddin í íslenskum kvennahandknattleik mætti vera meiri og sannarlega mættu fleiri leikmenn vera að leika með félagsliðum í sterkum deildum í Evrópu. Aðeins sex leikmenn af 18 í HM-hópnum leika með félagsliðum utan Íslands. Arnar segist binda vonir við að með þátttöku landsliðsins á stórmótum, sem stefnt er á að verði reglulegri, kveikni áhugi hjá fleiri ungum stelpum fyrir handboltanum, þær átti sig á að hægt sé að ná árangri og komast á stórmót með landsliðinu.

Lilja Ágústsdóttir og Elín Rósa Magnúsdóttir eru að stíga sín fyrstu skref með A-landsliðinu. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Fleiri leikmenn fari út

„Einnig bindum við vonir við að með þátttöku á stórmótum lifni áhugi félagsliða í Evrópu fyrir því að semja við íslenskar handknattleikskonur þannig að með tíð og tíma leiki fleiri utan lands en nú er.

Elín Klara Þorkelsdóttir úr Haukum og leikmaður Olísdeildar á síðustu leiktíð hefur verið burðarás yngri landsliðanna á síðustu árum. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Opna áhuga þeirra yngri

Ég vænti þess líka að þær stúlkur sem eru í yngri landsliðunum sjái þetta sem tækifæri til þess að leggja enn harðar að sér og þær horfi til þess að eiga möguleika á að taka þátt í svona verkefnum á næstu árum. Það er að vegferðin haldi áfram og við tökum skref áfram með kvennahandboltann því það er okkur nauðsynlegt,“ sagði Arnar Pétursson landsliðsþjálfari í handknattleik kvenna í samtali við handbolta.is í gær.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -