Þungu fargi var létt af Aroni Rafni Eðvarðssyni markverði og öðrum Haukamönnum upp úr klukkan níu í morgun þegar tilkynning barst frá aganefnd Handknattleikssambands Evrópu, EHF, þess efnis að Aron Rafn verður gjaldgengur með Haukum á morgun þegar þeir mæta rúmenska liðinu CSM Focsani í síðari viðureign liðanna í 32-liða úrslitum Evrópubikarkeppninnar á Ásvöllum. Frítt verður inn á leikinn í boði DB Schenker
Fékk aðvörun
„Aron Rafn fékk aðvörun en ekki leikbann,“ sagði Þorgeir Haraldsson, formaður handknattleiksdeildar Hauka, við handbolta.is og var skiljanlega mjög ánægður með tíðindin sem hann fékk með morgunkaffinu á Ásvöllum í morgun.
Málið má rekja til þess að Aron Rafn þótti, að mati dómara leiksins í Rúmeníu á síðasta laugadag, hafa opnað dyr í íþróttahúsinu á harkalegan hátt. Fyrir vikið var hann útilokaður frá þátttöku í síðari hálfleik viðureignar liðanna.
Sterk andmæli í greinargerð
„Við sendum mjög sterk andmæli í greinargerð til EHF vegna málsins sem aganefndin hefur fallist á,“ sagði Þorgeir sem átti í gær allt eins von á að ekki yrði fallist andmæli Hauka í greinargerð sem send var til aganefndar EHF.
Erum mjög sáttir
„Við erum vitanlega mjög sáttir og Aron Rafn er í sjöunda himni. Hann er kominn í kaffi til okkar á Ásvelli,“ sagði formaðurinn ennfremur.
Frítt inn og neikvætt próf
Frítt verður inn í boði DB Schenker á leik Hauka og CSM Focsani sem hefst á Ásvöllum klukkan 16 á morgun, laugardag, en vísa þarf neikvæðri niðurstöðu úr kórónuveiruprófi við innganginn. Tvö 500 manna sóttvarnarhólf verða opnuð fyrir þá sem vilja mæta á Ásvelli og styðja við bakið á Haukaliðinu sem tapaði fyrri viðureigninni með tveggja marka mun í Rúmeníu um síðustu helgi, 28:26.