- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Þurfti nánast að læra leikinn upp á nýtt

Bjarki Már Elísson, leikmaður Lemgo. Mynd/Lemgo Lippe
- Auglýsing -

„Undirbúningstímabilið var langt og strangt og ég get viðurkennt að það tók á bæði líkamlega og andlega,“ sagði Bjarki Már Elísson, leikmaður Lemgo, markakóngur þýsku deildarinnar á síðasta tímabili og landsliðsmaður, þegar handbolti.is sló á þráðinn til hans í vikunni. Í kvöld verður loksins flautað til leiks í þýsku 1.deildinni og meðal leikja verður viðureign Bjarka Más og félaga við nýliða Coburg.

Nærri 7 mánuðir án leikja

„Ég kom hingað út í júlí eftir sumarfrí heima á Íslandi og sá þá fram á nærri þriggja mánaða æfingatímabil fyrir utan að síðasta keppnistímabilinu lauk í mars þótt haldið hafi verið í veika von alveg fram í síðari hluta apríl að hægt yrði að taka upp þráðinn,“ sagði Bjarki Már en komið er inn á sjöunda mánuð síðan hann lék síðasta alvöru keppnisleik.

Kórónuveiran hefur sett strik í reikninginn hjá handboltamönnum í Þýskalandi eins og flest öllum íbúum Evrópu síðustu mánuði. Og þótt enn sjáist ekki fyrir endann á þvælingi veirunnar verður flautað til leiks  í karlahandboltanum í Þýskalandi í dag eins og áður sagði. Kvenfólkið byrjaði sitt tímabil fyrir mánuði.

Einum of langt frí

„Við tölum oft um það handboltamenn að sumarfríið okkar sé alltof stutt og það má með nokkrum sanni segja en að þessu sinni má segja að öfgarnar hafi farið í hina áttina,“ sagði Bjarki sem hefur verið góðan tíma að koma sér af stað aftur og fá tilfinningu fyrir leiknum.

„Maður þurfti nánast að læra leikinn upp á nýtt, að minnsta kosti að fá tilfinningu fyrir íþróttinni aftur.  Við höfum heldur ekki leikið marga æfingaleiki og alls ekki tekið þátt í mótum á undirbúningstímanum. Það er allt annað að taka þátt í leikjum þar sem að einhverju er að keppa eins og í mótum. En loksins er þetta að fara af stað,“ sagði Bjarki Már sem horfir spenntur fram á keppnistímabilið.

Leikstíll Lemgo hentar vel

Bjarki varð markakóngur þýsku 1. deildarinnar á síðasta tímabili sem trúlega var eitt hans besta á ferlinum. Leikstíll Lemgo hentar honum vel en hann kom til félagsins fyrir ári. Leikur liðsins er hraður og mikið um opnanir fyrir hornamenn auk þess sem lögð er áhersla á hraðaupphlaup. Florian Kehrmann, þjálfari Lemgo, er fyrrverandi hornamaður og þekkir vel hlutverk þeirra. „Hann veitir hornamönnum sínum mikið traust sem er afar mikilvægt,“ segir Bjarki sem mun leggja sig allan fram í vetur að fylgja eftir velgengni síðasta tímabils.

Fórnarlamb eigin velgengni

Bjarki  segist vissulega finna fyrir pressu á að halda óbreyttu striki. „Maður er orðinn fórnarlamb engin velgengni, það er jákvætt að vissu leyti,” sagði Bjarki og hló við. „Markakóngstitilinum fylgir meiri pressa en ég hlakka til að takast á við hana og sýna fram á að ekki hafi verið um heppni að ræða. Ég stefni á að eiga svipað tímabil. Það væri að minnsta kosti gaman.“

Lemgo var í 10. sæti af 18 liðum deildarinnar þegar keppni í 1.deildinni var hætt í mars eftir að hafa unnið 11 af síðustu 14 leikjunum eftir erfiða byrjun.  „Markmiðið er klárlega að forðast fallbaráttuna en það er líka ljóst að við eigum nokkuð í land með að ná liðunum í efri hlutanum, einfaldlega vegna þess að þau hafa yfir meira fjármagni að ráða en lið mitt. Við erum ekki með mjög breiðan hóp en hinsvegar öflugan að mínu mati og ég tel að við eigum að geta og munum vinna sterkari liðin á heimavelli á keppnistímabilinu,“ segir Bjark Már.

Áhorfendur skipti miklu máli

Bjarki segir að handknattleikurinn sé  mjög háður því að fólk geti komið á leiki. Tekjur af áhorfendum skipta gríðarlegu máli vegna þess að sjónvarpssamningarnir eru ekki nema brot af því sem gerist í fótboltanum. Þetta er ein ástæða þess að tímabilið byrjar síðar núna en venjulega. Vonir standa til þess að hægt verði að hafa eitthvað af áhorfendum á flestum leikjunum.

„Við reiknum til dæmis með að fá að hafa um 1.000 áhorfendur á heimaleikjum í keppnishöll sem rúmar 4.500. Það er góður áfangi í þessu ástandi vegna þess að það er leiðinlegt að leika í tómri höll. Stemningin er engin. Vonandi verður hægt að hleypa fleiri áhorfendum á leikina þegar líður inn á keppnistímabilið.

Maður er bara fyrst og fremst þakklátur fyrir að byrja. Það ríkir mikil tilhlökkun í öllum leikmönnum deildarinnar að hefja leik á nýjan leik,“ sagði Bjarki Már Elísson, leikmaður Lemgo eldhress að vanda í samtali við handbolta.is.

Leikir kvöldsins í 1.deild þýska handboltans:

Lemg- Coburg 2000
SC Magdeburg – Bergischer
-Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ómar Ingi Magnússon leika með Magdeburg
– Arnór Þór Gunnarsson og Ragnar Jóhannsson leika með Bergischer

Hannover-Burgdorf – GWD Minden
Leipzig – Ludwigshafen

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -