„Það var afar þýðingarmikið fyrir handboltann í Bandaríkjunum að öðlast keppnisrétt á HM. Nú er það undir okkur komið að sýna fram á að við verðskuldum sætið,“ segir Robert Hedin hinn sænski landsliðsþjálfari Bandaríkjanna í handknattleik karla í samtali við handbollskanalen í Svíþjóð.
Alþjóða handknattleikssambandið, IHF, hefur víða verið harðlega gagnrýnt á síðustu dögum fyrir að afhenda bandaríska landsliðinu farseðilinn á HM í Egyptalandi í janúar eftir að nauðsynlegt reyndist að fella undankeppni HM í Norður-Ameríku og Karabíahafseyjum niður vegna kórónuveirufaraldursins.
Bandaríska landsliðið þykir ekki öflugt. IHF fór heldur ekkert í grafgötur með það í rökstuðningi sínum að mjög væri horft til þess að koma handknattleik inn í sjónvarp í Bandaríkjunum.
Mörgum þótt IHF ganga framhjá Grænlendingum. Hedin segist ekkert skilja í þeim aðfinnslum. Kúba sé sennilega með besta liðið í þessum heimshluta og hans lið hafi unnið annan af tveimur leikjum sínum við Kúbu á Pan-American leikunum, síðast þegar þeir fóru fram. Vel hafi einnig gengið á móti Grænlendingum.
Hedin segir slæmt að forkeppnin hafi ekki getað farið fram. Hans lið hefði örugglega unnið Grænlendinga. „Vegna Ólympíuleikanna í Los Angeles þá erum við í uppbyggingu og verðum einnig með á HM 2025 og 2027,“ segir Hendin sem stýrði norska landsliðinu frá 2008 til 2014.
Hedin, sem tók við starfi landsliðsþjálfara Bandaríkjanna fyrir tveimur árum, segir að unnið sé baki brotnu að uppbyggingu handknattleiksíþróttarinnar í Bandaríkjunum. Þegar séu nokkrir bandarískir leikmenn með félagsliðum í Evrópu og stefnt að því að koma ungum og efnilegum handknattleiksmönnum að hjá sterkum félagsliðum álfunnar á næstu árum.
FRÉTTAVAKTIN - Handbolti.is:
- Auglýsing -
- Auglýsing -
Nýlegt á handbolti.is