Ungmennafélagið Fjölnir hélt uppskeruhátíð sína í kvöld en á henni voru afhentar viðurkenningar til íþróttafólks félagsins sem skarað hefur framúr á árinu. Á hátíðinni voru Þyri Erla Sigurðardóttir og Óðinn Freyr Heiðmarsson valið handboltakona og handboltakarl Fjölnis 2022.
„Þyri Erla er uppalin í Fjölni og spilaði þar alla yngri flokka áður en hún fór að leika með meistaraflokknum. Þyri hefur gríðarlega marga kosti bæði innan vallar og utan og er frábær fyrirmynd fyrir alla iðkendur. Hún er mjög metnaðarfull og er alltaf tilbúin að leggja meira á sig til að bæta sig,“ segir í tilkynningu frá Fjölni sem barst til handbolta.is í kvöld.
„Óðinn Freyr stimplaði sig strax inn í ungt og efnilegt Fjölnislið þegar hann gekk í raðir félagsins árið 2019. Hann býr yfir mikilli baráttugleði og dugnaði ásamt því að vinnusemi hans er til fyrirmyndar bæði á æfingum og í keppnum. Hann var lykilmaður í vörn og sókn þegar liðið var hársbreidd frá sæti í efstu deild á síðustu leiktíð,“ segir ennfremur í tilkynningu í röksemd fyrir kjörið hjá handknattleiksdeild Fjölnis.