„Það er frábært að fá úrslitaleik þar sem allt er undir. Slíkt hjálpar okkur,“ segir Arnar Pétursson landsliðsþjálfari í handknattleik karla um viðureignina við Þýskaland í lokaumferð F-riðils Evrópumóts kvenna í Innsbruck í kvöld klukkan 19.30. Sigurliðið heldur áfram í milliriðil en tapliðið verður úr leik.
„Ég vona því að okkur takist að hafa liðið á réttum stað þegar á hólminn verður komist. Við verðum að vera tilbúin að takast á við þýskt lið sem ætlar að keyra á okkur strax í upphafi,“ segir Arnar sem hefur ásamt Ágústi Jóhannssyni aðstoðarþjálfara legið yfir leik þýska landsliðsins frá því að viðureigninni við Úkraínu lauk á sunnudagskvöld.
Arnar segir styrkleika þýska liðsins ekki felast hvað síst í varnarleiknum sem leikinn er framarlega. Leikmenn eru líkamlegar sterkir en um leið eru þær kvikar.
Hjálparvörnin skiptir máli
„Sóknarlega kemur liðið í mjög grimmar árásir maður á mann. Við verðum að leika hjálparvörnina mjög vel. Það mun reyna mjög mikið á okkur í kvöld,“ segir Arnar.
Arnar segir meginmuninn á þýska og hollenska liðinu vera þann að meiri þyngd sé í þýska liðinu á sama tíma og hollensku leikmennirnir, sem íslenska liðið lék við í fyrstu umferð, er tekknískara. Þýska liðið er massívt og sterkt í árásum sínum.
Vínarvals á fimmtudag?
„Við verðum að leggja mikið í leikinn í kvöld til þess að hann skili okkur sem mest til framtíðar,“ segir Arnar Pétursson landsliðsþjálfari og hló við í lok viðtalsins þegar hann er spurður hvort reikna megi með að stiginn verði Vínarvals á fimmtudaginn og bætti við. „Við skulum vona það.“
Lengra viðtal er við Arnar í myndskeiðinu í þessari frétt miðri.
EM kvenna ”24 – leikjadagskrá, riðlakeppni
A-landslið kvenna – fréttasíða