Þýska landsliðskonan Emily Vogel hefur framlengt samning sinn við ungverska liðið FTC (Ferencváros) til tveggja ára, út leiktíðina 2028. Vogel, sem valin var í úrvalslið HM í síðasta mánuði í framhaldi af silfurverðlaunum þýska landsliðsins, fylgir þar með í fórspor hollensku landsliðskonunnar Angelu Malestein sem skrifaði undir nýjan samning til sama tíma við FTC fyrir helgina.
Vogel hefur gert það gott með FTC frá 2020 að hún kom frá Thüringen sumarið 2020. Hún hefur meðal annars skorað 938 mörk í 238 leikjum og tvisvar sinnum unnið ungverska meistaratitilinn og fjórum sinnum bikarkeppnina.
„Mér líður eins og heima,“ sagði Vogel sem kann vel við lífið í Búdapest, svo vel að hún hefur náð ágætum tökum á erfiðu tungumáli heimafólks, ungversku.
Jesper Jensen, fyrrverandi landsliðsþjálfari Danmerkur og danska liðsins Esbjerg, tók við þjálfun FTC í sumar og hyggst veita Evrópumeisturum Györ enn harðari keppni. Györ er einnig ungverskur meistari.




