Maike Merz og Tanja Kuttler frá Þýskalandi dæma viðureign Íslands og Suður Kóreu í lokaumferð D-riðils heimsmeistaramótsins í handknattleik karla í Kristianstad Arena í dag. Þetta verður annar leikurinn í röð hjá íslenska liðinu á mótinu sem konur dæma. Frönsku Bonaventura systurnar, Charlotte og Julie dæmdu leik Íslands og Ungverjalands á laugardagskvöld.
Merz og Kuttler dæmdu fyrri vináttulandsleik Þýskalands og Íslands í Bremen fyrr í þessum mánuði.
Þrjú pör kvenna eru á lista yfir dómara mótsins en auk þeirra þýsku og frönsku er eitt kvenpar frá Egyptalandi. Eins voru tvö kvenpör á skrá yfir varadómarapör mótsins sem kynntur var í haust. Annað egypskt og hitt franskt.
Gamaldags og úrelt
Christian Schwarzer, fyrrverandi landsliðsmaður Þýskalands, setti fram þá skoðun um helgina að kvenfólk ætti alls ekki að dæma leiki hjá karlmönnum. Bent Nyegaard, fyrrverandi þjálfari Fram og ÍR og nú einn helsti sérfræðingur Dana í handknattleik, sagði skoðun Schwarzer vera gamaldags og úrelta.
Viðureign Íslands og Suður Kóreu hefst klukkan 17 í dag.