- Auglýsing -
- Auglýsing -
-Auglýsing-

Tilbúinn að bregðast við ef þörf verður á

- Auglýsing -

„Ég hef ekki enn kallað inn mann í staðinn fyrir Donna en hef svo sannarlega velt því mikið fyrir mér síðustu daga. Sem stendur þá ætla ég bara að einbeita mér að þeim leikmönnum sem ég er með en er vissulega tilbúinn að bregðast við ef þörf verður á,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í handknattleik í viðtali við handbolti.is spurður hvort hann ætli að bregðast við því að Kristján Örn Kristjánsson, Donni, varð að draga sig út úr landsliðshópnum eftir fyrstu æfingu á föstudaginn.

Óvænt og verra

Grunur leikur á að Donni sé kviðslitinn og hafi verið síðan í október. „Það var óvænt að staðan á Donna væri eins slæm raun er á,“ sagði Snorri Steinn og vildi að öðru leyti ekki tjá sig um meiðsli Donna eða samskipti sín við hann.

„Sem stendur þá tel ég ekkert aðkallandi að bæta við leikmanni í hópinn. Ég ætla bara að bíða og sjá,“ sagði Snorri Steinn og bætti við að það væri heldur ekki einhver einn augljós kostur til að fylla sæti Donna.

Þorsteinn Leó Gunnarsson leikmaður Porto og íslenska landsliðsins. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð

Tíminn einn mun leiða það í ljós

„Það er enn þá sama spurningamerkið við þátttöku Þorsteins Leós á EM. Það er nokkuð sem ég hef gengið út frá síðan hópurinn var valinn. Mínar vonir um þátttöku hans á mótinu eru bundnar við milliriðlakeppnina. Síðan er alveg óvíst hvort það gangi eftir. Tíminn einn mun leiða það í ljós,“ sagði Snorri Steinn þegar hann svaraði enn einu sinni um stöðuna á stórskyttunni Þorsteini Leó Gunnarssyni er handbolti.is heyrði í Snorra Steini.

Er með 18 í hópnum

„Þegar maður er með meiddan leikmann í hópnum þá veltir maður honum ekkert meira fyrir sér heldur einbeitir sér að þeim sem maður hefur og eru heilir heilsu. Ég hef bara verið að spila saman þá 17 leikmenn sem klárir í slaginn eins og mál standa í dag. Með Þorsteini eru 18 í hópnum,“ segir Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari karla í handknattleik í viðtali við handbolti.is.

Landsliðið fer til Frakklands á morgun og leikur gegn Slóveníu á föstudag og við annað hvort Austurríki eða Frakkland á sunnudag. Til Kristianstad í Svíþjóð kemur landsliðið á miðvikudag eftir viku. Fyrsti leikurinn á EM verður föstudaginn 16. janúar gegn ítalska landsliðinu.

F-riðill (Kristianstad Arena, Kristianstad)
16. janúar: Ísland – Ítalía, kl. 17.
16. janúar: Ungverjaland – Pólland, kl. 19.30.
18. janúar: Pólland – Ísland, kl. 17.
18. janúar: Ítalía – Ungverjaland, kl. 19.30.
20. janúar: Pólland – Ítalía, kl. 17.
20. janúar: Ungverjaland – Ísland, kl. 19.30.

EM 2026.

A-landslið karla.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -