Viðureign kvennaliða Selfoss og AEK Aþenu í Evrópubikarkeppninni á morgun markar tímamót fyrir bæði félög vegna þess að um verður að ræða fyrsta leik beggja liða í Evrópukeppni félagsliða. Leikurinn fer fram í Aþenu og hefst klukkan 15 að íslenskum tíma.
Kvennalið Selfoss ákvað að taka slaginn í vor og taka þátt í Evrópukeppni í fyrsta sinn. Ljóst er að stjórnendur AEK hafa einnig velt þessu sama fyrir sér og komist að sömu niðurstöðu og Selfyssingar.
Deildarkeppnin hefst eftir mánuð
Keppni í efstu deild gríska handknattleiksins í kvennaflokki hefst ekki fyrr en eftir mánuð, 25. október. Þar af leiðandi verður leikurinn á morgun sá fyrsti hjá AEK á keppnistímabilinu.
AEK hóf æfingar 18. ágúst.
Þrjár úr leikmannahópnum voru í æfingahópi gríska landsliðsins sem var saman við æfingar frá 15. til 21. september.
Níu af 16 leikmönnum AEK eru Grikki, sex eru frá Brasilíu og ein er frá Póllandi.
AEK féll úr keppni í undanúrslitum um gríska meistaratitilinn í vor.
Ekki hefur tekist að grafa upp upplýsingar hvort leiknum í Aþenu á morgun verði streymt. Alltént stendur til að tékkneskir dómarar flauti til leiks klukkan 15.